Guðrún Guðbjörg Stephensen
Æviágrip
Guðrún Guðbjörg Stephensen fæddist í Selkirk í Manitoba í Kanada 11. maí 1919. Hún varð bráðkvödd á hjúkrunarheimilinu Eir 17. desember 2003. Foreldrar hennar voru Stefán Hansson Stephensen, f. á Hlemmiskeiði á Skeiðum 23. nóvember 1872, d. 7. júlí 1941, og Friðný Sigurborg Gunnlaugsdóttir, f. í Hlíð Álftafirði í Ísaf. 18. apríl 1884, d. 15. apríl 1951. Þau hjón eignuðust dótturina Guðrúnu og soninn Gunnlaug Hans Stephensen, f. 12. febrúar 1925, d. 4. júní 1980. Fyrir átti Stefán dótturina Ástu Eygló, f. 30. mars 1910, með Jónínu Erlendsdóttur, f. 11. desember 1878, d. 29. janúar 1954, og Friðný átti soninn Pétur, f. 14. maí 1904, d. 22. september 1983, með Jóni Bjarnasyni, f. 2. janúar 1881, d. 3. júní 1929.
Guðrún giftist 16. apríl 1945 Páli S. Pálssyni hrl., f. 29. janúar 1916, d. 11. júlí 1983, sjá framættir hans hér. Foreldrar hans voru Páll Jónsson, f. í Sauðanesi í A-Hún. 15. mars 1875, d. 24. október 1932, og Sesselja Þórðardóttir, f. á Steindyrum í Svarfaðardal 29. ágúst 1888, d. 10. september 1942. Guðrún og Páll eignuðust átta börn, sjá nánar á niðja síðunni. Niðjar Guðrúnar eru alls 60.
Guðrún ólst upp í Winnipeg í Kanada til 15 ára aldurs er hún flutti með foreldrum sínum til Íslands. Hún lauk kennaraprófi frá KÍ 1937 og stúdentsprófi utanskóla frá MR 1940. Guðrún var við nám í forskólakennslu við Teachers College, Columbia University á árunum 1940-1942.
Guðrún hóf störf sem fóstra á Grænuborg og varð forstöðukona þar um tvítugt. Hún var kennari og forstöðukona á barnaheimilum Sumargjafar meira og minna á árunum 1938-1947. Frá 1970 var hún við stundakennslu í gagnfræðaskólum og síðan við enskukennslu í Félagsstarfi aldraðra. Guðrún tók leiðsögumannapróf, var fararstjóri í utanlandsferðum og vann frá 1982 fram að starfslokum við gæslu á Þjóðminjasafni Íslands.