Ýmsar sögur um Guðrúnu, Pál, börnin þeirra, forfeður og formæður
Grein í Húnavöku árið 1975 um Pál Jónsson og Sesselju Þórðardóttur
Árið 1975 birti Guðmundur Jósafatsson frá Brandsstöðum grein í Húnavöku um hjónin í Sauðanesi, foreldra Páls S.. Fer grein Guðmundar hér á eftir:
Hjónin í Sauðanesi: Páll Jónsson (100 ára minning) og Sesselja Þórðardóttir.
Páll og Sesselja í Sauðanesi eru nú orðin svo fjarlæg flestum hinna yngri Húnvetninga, að þau eru tæpast lengur nefnd á nafn, nema af þeirra nánustu. Þó standa þau enn svo ljóslifandi í minningum ýmsra okkar, að þaðan verða þau ekki þurrkuð fyrr en yfir lýkur. Verða hér rifjuð upp fáein drög að minningum mínum um þau.
Páll fæddist í Sauðanesi 15. marz 1875. Foreldrar hans voru Helga Gísladóttir og Jón Jónsson, sem þá réðu þar húsum. Helga var dóttir Gísla Stefánssonar bónda í Flatatungu í Skagafirði. Jón faðir Páls var Jónsson bónda á Syðsta-Vatni Ólafssonar. Kona Jóns á Syðsta-Vatni var Helga Stefánsdóttir frá Flatatungu. Foreldrar Páls voru því systkinabörn, bæði frá Flatatungu, en þar hafði sama ættin búið um 200 ára skeið.
Jón drukknaði við silungsveiði í Laxárvatni. 15. april 1884. Stóð Helga þá uppi með mörg börn á ýmsum aldri og mörg í ómegð. Hún hélt þó búinu með aðstoð þeirra eldri. Dvaldi Páll þar til 14 ára aldurs og fór þá til vistar og þó á vegum móður sinnar a. m. k. í fyrstu. Haustið 1895 réðst hann til náms á búnaðarskólanum á Hólum og lauk því vorið 1897. Gerðist þá vinnumaður á Þingeyrum hjá Hermanni Jónassyni áður skólastjóra á Hólum. Varð og ráðsmaður á búinu, þegar Hermann var fjarverandi. Mat Páll hann mjög og var hann ekki einn um aðdáun samferðamannanna á þeim fágæta mannkosta og gáfnamanni.
Vorið 1902 keypti Páll Smyrlaberg á Ásum og hóf búskap þar í hálflendunni. Vorið 1903 tók Stefán bróðir Páls hálflenduna á móti honum og bjuggu þeir bræður þar til vors 1905. Þá keypti Stefán Smyrlaberg, en Páll tók Miðhóp til ábúðar og bjó þar næstu ár. En vorið 1906 skipti hann á jörð og búi við Björn Kristófersson frá "Stóra-Fjalli í Borgarfirði, sem þá bjó í Sauðanesi. Þóttu þau skipti allnýstárleg og mynduðust þjóðsagnir um. Hið sanna mun, að þeir skiptu svo rækilega, að fátt mun hafa verið flutt á milli nema fólkið. Slík skipti voru fáheyrð og gerðist mönnum tíðrætt um. Bæði býlin voru þjóðjarðir og fóru skiptin fram með fullu samþykki stjórnarvalda. Sagnir um þessa verslun þeirra hnigu mjög í þá átt, að þar hefði farið furðu nærri jafnskiptum. Páll var leiguliði fyrstu árin en festi kaup á Sauðanesi 1910. Var kaupverðið 3750 krónur. Þessi ár og hin næstu var Helga móðir hans fyrir framan hjá honum, enda dvaldi hún á hans vegum til dauðadags.
Páll bjó allgóðu búi lengst af, þótt hann byrjaði með þröngan skó í því efni. Hann var stórhuga um framkvæmdir og framfarir sé miðað við þær aðstæður, er þá ríktu. Hann var kappgjarn, hverjum manni óhlífnari á sjálfan sig, ágætlega hugrakkur og oft hug kvæmur. En hann var fljóthuga, jafnvel sveimhuga en trauðla eins fasthuga og greind hans benti til, en svo greiðvikinn og hjálpfús, að hann sást lítt fyrir, þegar um það var að ræða að rétta hjálparhönd, eða að greiða götu þess, er í hlut átti. Og gestrisni hans var fræg frá upphafi, og fylgdi heimili þeirra alltaf og jafnframt ódæma gestanauð og annar átroðníngur. Jókst það enn eftir að Sesselja gerðist þar húsfreyja.
Páll var áhugamaður um félagsmál. Hann var verkstjóri í Torfalækjarhreppi við útrýmingarböðun fjárkláðans veturinn 1904-05. Hann var formaður Búnaðarfélags Torfalækjarhrepps 1907-1913. Og hann beitti sér mjög fyrir því, að sléttaðar yrðu sleðabrautir hér yfir ýmsa flata flóa í héraðinu, sem lágu vel við vetrarferðum. Upp úr aldamótunum ruddu sleðar sér mjög til rúms, þegar ísa lagði svo, að sleðafæri yrði. Þá reyndust ýmsir slakþýfðir flóar torfærir þótt hallalitlir væru. Var þá gripið til þess ráðs að rista þúfurnar af sleðabrautinni og raða þeim til beggja hliða. Páll varð í þessu máli brautryðjandinn í þess orðs bestu merkingu. En ekki mun það hafa orðið honum gróðafyrirtæki. En þar naut kappgirni og óhlífni Páls sín þeim mun betur. En mikil hagsbót varð oft að þessu, þótt nú sé það víðast horfið með öllu og til einskis nýtt, enda sleðarnir aðeins til í minningum gamalla manna.
Páll sléttaði allmikið af túninu í Sauðanesi. Þá voru engin , hjálpartæki fyrir hendi nema ofanristuspaðinn og rekan, hvorugt vænlegt til afreka sé miðað við nútíma afköst. Hann hugðist taka vatn úr Laxárvatni og veita því á flóana fyrir norðan og vestan Sauðanes. Sá draumur hans var svo fífldjarfur að furðu gegnir, þótt leiðin væri fræðilega fær. Verkið hóf hann, en varð lítt ágengt. Síðar komu þar til önnur ráð og önnur ætlan. En draumur Páls um að leiða vatnið þarna í gegn er nú staðreynd. Hann átti hugmyndina og er hún tvímælalaust kveikjan að því að rafstöðin við Sauðanes var reist.
Páll var tæplega meðalmaður á hæð, herðar vel gerðar og jafnar, þykkur undir hönd og jafn vaxinn, hvatlegur í hreyfingum og léttur í fasi og máli.
Haustið 1913 réðst bústýra til hans, Sesselja Þórðardóttir frá Steindyrum í Svarfaðardal. Gengu þau í hjónaband vorið eftir. Breytti þá heimilishaldið all mjög um svip þar í Sauðanesi. Duldist það engum, er gjörla þekktu til. Þó var Helga móðir Páls merk húsmóðir, en þá tekin mjög að láta á sjá fyrir sakir elli og slita, enda stóð hún þá á sjötugu. Voru þar því að fara fram kynslóðaskipti. Þau hafa löngum sett sín svipmót á hið næsta umhverfi.
Sesselja fæddist að Steindyrum í Svarfaðardal 29. ág. 1888. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Björnsdóttir frá Syðra-Garðshorni og Þórður Jónsson frá Hrappsstöðum, sem lengi bjuggu í Steindyrum.
Sesselja ólst upp hjá foreldrum sínum í stórum systkinahóp. Steindyr voru kotbýli, svo nytjarýrt að undrun vekur að þar skyldi unnt að framfleyta stórum-hóp barna á ómagaaldri. Hagsýni og frábær atorka einkenndu þar allt heimilishald, enda kom þar og sjósókn húsbóndans til. Var þangað sóttur margur málsverðurinn, trúlega svo margir að oftast nægðu til viðunandi saðningar. Mörgum nútímamanninum sýnist það torráðin gáta, að heimili, sem allar nauðþurftir þarf að skera við nögl, skuli ekki hafa skilað korkusálum einum fram á þroskaaldur. En sú varð raunin á að slíkt henti sjaldnar en ætla mætti. Sesselja og systkin hennar eru þar ljóst dæmi. Skólagöngu í nútímamerkingu þess orðs var ekki um að ræða. Kristindómsfræðslan var hið eina lögskipaða. En löghelguð var og skyldan að verða læs og skrifandi. En „það að verða læs og skrifandi hefur aldrei verið talið til menntunar á Íslandi" er haft eftir Halldóri frá Laxnesi og mun það réttmæli. Hitt mun þó enn sannara, að þótt það eitt að ráða þolanlega við lestur og skrift, sanni ekki menntun þess, er í hlut á, verður því þó ekki neitað, að þar eru hornsteinar andlegrar mannræktar. Þau Steindyrasystkin munu snemma hafa orðið hlutgeng í þessum menntum. Víst er að ýmsar sveitir vorar hafa verið furðu samstæðar um ræktun lestrarhæfni og svölun lestrarþrár. Í því efni stóð Svarfaðardalur framlega á síðari hluta 19. aldar. Þeir stofnuðu lestrarfélag um eða litlu eftir 1880. Er mér ekki grunlaust um, að sú sérstæða félagsheild, sem Svarfdælir virðast hafa átt og verndað, það sem af er þessari öld, eigi furðutraustar rætur í menningu og mannrækt 19. aldarinnar. Hjá því fer varla að þar komi lestrarfélag þeirra við sögu. Mun því óhætt að fullyrða, að Steindyraheimilið hafi leitað andlegra fanga í bækur lestrarfélagsins.
Guðrún móðir Sesselju lést frá barnahópnum í júní 1906. Það haust mun Sesselja hafa ráðist til vistar á heimili Guðlaugs sýslumanns Guðmundssonar á Akureyri og var hún vinnukona hjá sýslumannshjónunum næstu þrjú missiri. Þar kom hún í umhverfi, sem fátt átti sameigið með æskuheimili hennar. Þarna átti hún annríka og erfiða vist, -verk og vistarráð ekki miðuð við kennslu. En nýtt umhverfi og nýir starfshættir verða þeim líka að námsbrautum, sem námshæfni og námslöngun eru gæddir. Þó telja megi víst, að húsráðendur hafi lagt þá eina rækt við griðkonuna, sem hæfði önn hennar, má ekki gleyma því, að þá voru þær mikilhæfu dætur Guðlaugs sýslumanns enn í föður-garði. Fer ekki hjá því að Sesselja hefur dregist að þeim og mótast að nokkru af glæsibrag þeirra. Sjálf var hún á sínu mýksta mótunarskeiði og mun hafa mætt alúð af þeirra hálfu og notið hennar, þótt annars væri þar um staðfest djúp að ræða milli griðkonu og aðalsættar.
Vorið 1908 réðst Sesselja til vistar norður í Bárðardal og dvaldi þar næstu fjögur árin, lengst á Mýri. Ekki er að efa, að það umhverfi, er hún mætti þar, hafi borið annað svipmót en hið svarfdælska. Víst er, að svo leitandi sem hún var að eðli og athöfn, hafa henni opnast þar ný námsefni, -nýjar þroskaleiðir. Mýrarheimilið var þekkt að glæsibrag og taldi Sesselja það til gæfuspora sinna að hafa átt þess kost að dvelja þar. Með þeim Aðalbjörgu á Mýri, hinni frábærlega gáfuðu og að hennar tíðarmati fjöl-menntuðu konu, og Sesselju tókst vinátta, sem þeim entist til leiðarloka. Skiptust þær á sendibréfum meðan báðar lifðu. Þau vináttutengsl sýna, að Aðalbjörgu hefur fundist nokkurs vert um þær gáfur, sem mættu henni þar sem Sesselja fór.
Þegar rætt er um menntun kvenna á þessu tímabili og þó öllu heldur menntunarleysi, sem tíðast er milli tanna, gleymist oft sú þekking á iðnaði þjóðarinnar, sem íslenskar húsmæður áttu þá yfir að ráða og bókstaflega bjargaði þjóðinni - fæddi hana og klæddi. Sá hlutur húsmæðra í bjargráðum hennar virðist gleymast oft einkum þó matvælaiðnaðurinn, þessi furðulega fjölþætta þekking, sem nú er að hverfa úr höndum og hugum húsmæðranna og glatast þá með öllu úr þjóðlífinu sem almenningseign. En þessi þekking og þessi starfshæfni hefur aldrei verið talin til iðnaðar eða metin til menntunar kvenna.
Þegar augum er rennt yfir starfsferil þeirra kvenna, sem áttu slíka önn fyrir höndum alla ævi sem Sesselja í Sauðanesi, þarf ekki djúpt að grafa til að sannfærast um, hversu gífurlegur þáttur húsmóðurstarfsins liggur í því að klæða þá fjölskyldu, sem þar var fyrir hendi. Tólf börn auk annarra heimilismanna þurfa margar flíkur. Það mun nú á dögum trauðla tekið trúanlegt en er þó satt, að fæst af þeim flíkum fóru um annarra hendur en hennar, þegar sauma skyldi eða prjóna. Sesselja var þúsund þjala smiður og jafnframt frábær að afköstum, enda fer það oftast saman. Þeir, sem slíkri gáfu eru gæddir eiga eitt í fórum sínum, sem samferðamenn festa sjaldan sjónir á. Hvert verk liggur þeim svo í augum uppi, að þeim eru allar bollaleggingar um, hversu úr skuli leysa, algjörlega óþarfar. Þeir tapa aldrei handtaki, þurfa aldrei að brjóta það upp í dag, sem byggt var í gær, eiga öll sín handtök framlögð til fullra nytja að dagsverki loknu, standa aldrei í skuld við liðinn dag eða lokið verk. Þeir, sem slíkum náðargáfum eru gæddir, eiga því flestum fleiri stundum úr að spila, flestum sjaldnar í tímahraki og flýta sér oftast hægt. Ég hefi sárafáum mætt um dagana, sem þessar eigindir áttu í ríkari mæli en Sesselja í Sauðanesi.
Sesselja var meðalkona á hæð, íturvaxin og björt yfirlitum. Á unga aldri voru hreyfingar allar mjúkar og glæsilegar. Námslöngun hennar og skilningur voru frábær. Lestrarþrá hennar virtist lítt seðjandi og er nær óskiljanlegt hversu konu með slíkar annir á hönd um, auðnaðist að svala þeirri þrá. En hún nýtti sínar stundir til hlítar. Hún las í bók með þvöruna í hendinni og sinnti þó báðum vel. En drýgstar munu þær stundir hafa orðið, sem hún var með prjóna. Hún las á kvöldvökum og prjónaði sokka, tók úr á hæl og tá án þess að fipast við lesturinn. Hún var slík hamhleypa í því efni að hún prjónaði karlmannspeysu í höndum á einum degi og hefur það lengi verið talið til afreka. Þessi saga barst um héraðið:
Unglingspiltur kom að Sauðanesi um haust. Hregg var á og var hann hrakinn af vosbúð og kulda enda vanbúinn. Klæði hans voru tekin til þerris. Að morgni var þeim skilað þurrum svo sem venja var í sveitum, væri þess kostur. Sokkamir voru ekki aðeins þurrir. Húsmóðirin hafði „prjónað neðan við þá" og skilaði þeim þurrum og þæfðum um morguninn. Það vakti oft athygli þeirra, er eyra höfðu fyrir fögru máli, hversu óvenju myndauðugt málfar Sesselju var. Þekking hennar á tungutaki feðra sinna var fágætt. Ég hefi fáum kynnst, sem slík kynstur kunnu af málsháttum og orðskviðum og hún. Þessi fágætu skrautblóm tungunnar léku svo á vörum hennar að oft var unun að. Svo virtist, sem hún gleymdi ekki snillyrði, ef hún festi það á færið sitt. Ég set hér eitt, sem sýnir örlítið svipmót af málfari hennar.
Um það var rætt kvöld eitt í baðstofunni í Sauðanesi, að tilgreindur maður, sem notið hafði fágætrar fyrirgreiðslu og átti þess þá góðan kost að greiða hluta hennar og í líkri mynd, án þess að nokkurrar slíkrar viðleitni yrði vart af hans hálfu. Sesselja mælti þá: „Það hefur fleiri hent, þegar borga skal það, sem best er gert, að mæla þá í hálfum hleif og höllu keri."
Páll í Sauðanesi missti heilsuna síðustu sambúðarár þeirra. Þurfti hann að dveljast á sjúkrahúsi oftar en um sinn og lá þar þungar legur. Lést hann 24. okt. 1932. Stóð Sesselja þá uppi ein með 12 börn, það elsta 18 ára en hið yngsta var skírt við kistu hans. Hjónin á Húnstöðum, Sigurbjörg Gísladóttir og Jón Benediktsson buðu henni þá að taka eitt barnið - Önnu -í fóstur og ólst hún þar upp til þroskaaldurs.
Ekki þarf djúpt að grafa til að skilja að ekki hafi allsnægtir á nútíðarvísu sett sinn svip á búskap Sesselju í Sauðanesi, þegar hún var orðin ekkja. Páll hafði barist við ban-vænan sjúkdóm um alllangt skeið. Þá var ekki flúið til sjúkrasamlags eða annarrar samhjálpar um greiðslur fyrir læknishjálp og sjúkralegur. Allt slíkt féll aðstand endum til skuldar. Þegar fyrirvinnan var fallin, féll þessi hlutur á herðar ekkjunnar í Sauðanesi. Hún var að vísu með talsvert bú eða allt að 180 ám og 4 kúm með viðeldi. Hrossastofn var sjaldan til muna fram yfir nauðsynjar heimilisins. En þegar þess er gætt, að þá er heimskreppan að ríða yfir þjóðina af slíkum ægiþunga, að slíkt öngþveiti hefur ekki gengið yfir á þessari öld. Á það má benda að haustið 1932 ráku húnvetnskir bændur dilkahóp til Reykjavíkur og töldu það gróðafyrirtæki að fá þar rúmum tveim krónum meira fyrir dilkinn á blóðvelli, en hann lagði sig á Blönduósi. Þó fengust ekki fullar ellefu krónur fyrir dilkinn í Reykjavík. Var þó rekstrar- kostnaður að engu metinn.
Þegar þessa er gætt, virðist ekki djarft þótt fullyrt sé, að gjaldeyrir Sauðanesbúsins hafi ekki reynst digur sjóður haustið það. En hann þurfti að fæða og klæða ekkju með 11 börn og ungmenni, þar sem ekkert hafði náð fullum þroska. En þessi hópur hennar var svo samstæður að fátítt mun og verður vart framhjá því komist að bakvið þá samheldni hafi staðið skapfesta Sesselju. Þau systkin hafa öll vaxið upp í óvenjugilda þjóðfélagsþegna, sem lokið hafa lengri eða skemmri skólagöngu, sem hér verður ekki rakin. Það blasir við að móðir þeirra gat ekki rétt þeim hjálp á námsferlinum eftir að bernsku lauk. Öll luku þau honum þó með sæmd. En handtök þeirra henni til styrktar voru víst aldrei talin. Það verður ekki heldur gert hér.. . . .
Nú [innsk. 1975] eru á lífi 81 af afkomendum þeirra Páls og Sesselju. Vert er að benda á: Þegar Páll fellur frá eru 10 börn innan 16 ára og höfuðfyrirvinnan auk Sesselju tveir drengir 16 og 18 ára, sem ári síðar hurfu að námi. Sú varð raunin á, að það féll að langmestu leyti í hennar hlut að skila þessum mörgu börnum sínum áfram meðan henni entist orka. En hún féll í valinn eftir þunga legu 10. sept. 1942.
1932 var hafist handa um að virkja Laxá hjá Sauðanesi. Þegar um virkjunarréttindi var að ræða, var því við Sesselju eina að eiga um samninga alla. Þau mál skulu ekki rakin hér. Slík réttindi voru ekki hátt metin þá. Henni stóð til boða fjárhæð í eitt skifti fyrir öll. Þótt sá skór væri henni svo þröngur, sem öllum má ljóst vera, hafnaði hún því, en krafðist í þess stað heimtaugar og rafmagns fyrir heimilið í Sauðanesi meðan stöðin starfaði. Frá þeirri kröfu hvikaði hún ekki. Sýnir það, að skyggni hennar náði til framtíðarinnar.”
(Tilvitnun í grein Guðmundar lýkur hér).
Svipmyndir úr lífi Páls S. Pálssonar eftir Stefán Pálsson
Svipmyndir úr lífi Páls S. Pálssonar skáldað af syni hans Stefáni til heimabrúks fyrir afkomendur Páls
Það var bjart yfir Ásunum þennan haustdag 1933. Páll Sigþór stóð fyrir ofan Sauðanesbæinn og horfði yfir túnin og flæðin þar sem Laxá á Ásum liðaðist niður að Hjaltabakkamóunum. Hann var að fara að heiman til náms í Reykholti í Borgarfirði og hlakkaði mikið til en var jafnframt kvíðinn yfir framtíð móður sinnar og systkina. Páll var sautján ára og lífið var búið að vera mjög viðburðaríkt síðasta árið. Faðir hans dó fyrir tæpu ári og lét eftir sig tólf börn á aldrinum fjögurra mánaða til 18 ára. Páll var búinn að vinna hörðum höndum að búskapnum ásamt Jóni, elsta bróðurnum og nú voru þeir báðir að fara í Reykholt.
Páll horfði til Laxárvatns sem var matarkista Sauðanesbænda. Þar drukknaði afi hans þegar hann var að veiða að vetri til og fór niður um vök á ísnum. Páll hugsaði til sjóorustu sem hann háði á vatninu í fyrra. Hann var að vitja um netin með bróður sínum Gísla, þá 12 ára að aldri, sem sagði:
- Palli, er Davíð að leggja netin við Álftatangann?
- Já, skrattans ráðsmaðurinn á Smyrlabergi hann hefur engan rétt til þess. Páll og Gísli réru í hvelli að Davíð og sagði Páll honum að miðlína vatnsins væri landamerki milli Smyrlabergs og Sauðaness og hefði ætíð verið svo. - Nei, ég hef fullan rétt til þess að leggja hérna, sagði Davíð og reisti upp aðra árina eins og hann ætlaði að slá til drengjanna.
- Burt með þig, sagði Páll og hóf aðra árina á loft. Við þetta bráði af Davíð og hann hætti við að leggja netin þarna.
Páll horfði á skurðinn sem var búið að grafa við norðurenda vatnsins og hugsaði um allan þrældóminn síðastliðinn vetur og í sumar við skurðgröftinn. Í samningum um rafstöðina sem nú var að rísa í Sauðaneslandinu hafði móðir hans krafist þess að Páll og Jón fengju vinnu við skurðgröftinn, þannig að þeir ynnu sinn daginn hvor og skiluðu eins manns starfi. Með þessu móti sá hún sér færi á að fá peninga til þess að standa straum af brýnustu útgjöldum vegna skuldanna og barnahópsins. Páll varð þó að játa með sér að hann hefði varla verið maður til að standa þarna í stykkinu, þó að enginn vissi það nema hann sjálfur og e.t.v. móðir hans. Hann var svo þreyttur á kvöldin þegar vinnudegi hans lauk í skurðinum að hann fleygði sér niður á gamlan dívan einhversstaðar í baðstofunni og lá þar skjálfandi nokkra stund áður en hann gat farið í húsin að gefa fénu kvöldgjöfina. Þá var það skapharkan ein sem bjargaði. Búfjárhirðingin náðist með hjálp yngri systkinanna.
Páll var ennþá með strengi eftir gærdaginn, en síðasta verk hans hafði verið að flytja grjótpoka á hestasleða frá malargryfjunni í Köldukinnarlandi og niður á vatnsbakkann. Þangað kom Bogi frá Skagaströnd á mótorbátnum sínum eftir Laxárvatni framan frá stíflu og þeir köstuðu þessum níðþungu grjótpokum um borð. Bogi flutti þá síðan á bátnum fram í stífluna í Nesinu.
- Palli, ertu ekki að koma? Kallaði Jón sem var óþolinmóður að komast af stað. - Jú, nú kem ég sagði Páll og hugsaði til þess að nú væri líkamlegum þrældómi lokið í bili. Móðir hans hafði brýnt hann á því að hann ætti að vera bestur í öllu því sem hann tæki sér fyrir hendur. Hann ætlaði að standa við það.
Vordagur 1934.
Fyrsti veturinn í Reykholti var að baki og Páll á heimleið. Það hafði verið mikil áskorun að takast á við verkefnin hvort heldur var námsefnið, leikfimi, leiklist eða félagslíf. Páll fann hversu létt honum var að koma fram og halda ræður. Hann naut þess í botn og var oft hugsað til fyrirmyndarinnar sem var þingmaðurinn Jón Pálmason á Akri og ræða við útför föður Páls. Í hríðarveðri í nóvember 1932 hafði verið dapurlegt að standa við gröf föðurins sem var horfinn frá eiginkonu og 12 börnum, hið yngsta kornabarn og hið elsta 17 ára. Þá spratt fram þingmaðurinn Jón á Akri og flutti ræðu, áður en rekum var kastað. Það var engin grátræða. Hann minntist látins vinar síns með hlýjum orðum, en síðan ræddi hann um hlutverk bóndans og starf í tengslum við æskuna og framtíðina. Það var eins og birti yfir öllu, þrátt fyrir veðurlagið og skammdegið. Svona ræðumaður ætlaði Páll að verða. Kannski kæmist hann á þing?
Það var vor í lofti og sólin skein á heimahagana þegar Páll nálgaðist Sauðanesið. Það var létt yfir Páli og hann hlakkaði til að gleðja móður sína með skýrslu um góðan námsárangur og forystu í félagslífi.
- Sæl mamma.
- Sæll sonur og velkominn, þú ert hraustlegur.
- Já, við erum vel alin í Reykholti og áhersla á líkamsrækt.
- Hvernig gekk námið?
- Það gekk vel. Hér er einkunnabókin. Ég var næstefstur yfir skólann. - Næstefstur. Af hverju varstu ekki efstur? Hefurðu engan metnað? Best að þú farir út í fjós að hjálpa til við mjaltirnar, sagði móðir hans snúðug og leit ekki við einkunnabókinni.
Vor og sumar 1935.
Páll hafði nú lokið tveimur vetrum í Reykholtsskóla og útskrifast um vorið 1935. Hann hafði reynt að bregðast ekki væntingum móður sinnar um námsárangur og verið foringi nemenda í félagslífinu. Hann hafði verið svo heppinn að fá vinnu við vegagerð á Holtavörðuheiðinni þetta sumar og ritaði þar eftirfarandi minningu:
Hvítasunnudagur 1935.
Ég er ekki viss um að ég sé vaknaður. Það er nótt, það eitt veit ég, og ég er einn í tjaldinu. Stormurinn hvín fyrir utan, og ég vakna brátt til fullrar meðvitundar úr móki svefnsins.
Undarlegt líf! Þarna ligg ég einn í tjaldi uppi á öræfum, ánægður yfir hamförum veðurs þrátt fyrir hinn napra kulda, og reyni aðeins að halda sænginni ofan á mér. - Ég rís upp í rúminu. Skárri eru það lætin! Snjóskafl inn á mitt gólf. Best að skeyta ekki meira um það en reyna að sofa.
Ósjálfrátt svífa fram minningar hins liðna tíma, samanburður á hinu áhyggjulausa og glaðværa lífi liðins tíma og einverunni hér. Þessum hugsunum fylgja ekki áhyggjur, þvert á móti finn ég til sælublandinnar gleði. Svona er allt breytingum háð, í raun og veru hef ég ekki yfir neinu að kvarta; því hvað kemur mér það við þótt vindurinn virðist þá og þegar ætla að svipta upp tjaldinu með mér og rúminu, á meðan það hangir fast enn þá, og mér er sæmilega heitt undir sænginni.
Það er kominn morgunn. Ég kveiki á olíuvélinni og drekk svo kaffið í mestu rólegheitum. Svo ligg ég lengi – lengi vakandi. Loks hrópa ég: Drengir, hvað er klukkan? Þegar ég get greint: “Þrettán mínútur yfir sjö!” þá leggst ég niður aftur.
Ég er einu sinni enn byrjaður á “Nihilista” eftir Dostojevski, og ætla mér að ljúka við bókina hvað sem það kostar. Tíminn líður. Ég fer í fötin, opna tjaldið með mestu erfiðleikum, og skríð út í nístandi norðannepjuna.
Heiðin er þungbúin. Það sem af henni sést er litað af fönn, og skammt frá eygir í grásvartan hríðarmökkinn. Kl. 11 er kallað: “Matur!” og allir þyrpast undir borð.
Nú er kl. um 4. ég hef þegar drukkið kaffið og skrifa þetta af einhverju fikti. Vindinn er að heldur lægja, og frá næsta tjaldi berast lágtónar frá harmonikku
15 ára snillings, sem skemmtir okkur vegakörlunum með nýjustu danslögunum.”
Kirkjuferð.
Sólin skein á Tröllakirkju og heiðríkja á Holtavörðuheiðinni. Strákarnir stóðu við vegavinnutjöldin og gerðu sig klára til fjallgöngunnar. Það var sunnudagur í lok júlí 1935 og í stað þess að halda til byggða á frídeginum ákváðu þeir Brandur Búason, Sigvaldi Kristjánsson, Jón Pjetursson, Sveinn Þórðarson, Páll S. Pálsson og Ingvar Ingvarsson að klífa Snjófjöllin og ganga á Tröllakirkju.
Piltunum sóttist gangan vel yfir lyng og móa að rótum fjallanna en þar tóku við grýttar hlíðar fjallsins. Brandur var hinn brattasti og sagði:
- Nú hefst skemmtigangan og ekki ástæða til að slíta skóm vorum á þessu grjóti. Mun ég berfættur ganga til þessarar kirkjuferðar. Tók hann að svo mæltu af sér skóna. Félagar hans gerðu góðan róm að þessu, en treystu sér ekki til þess að leika þetta eftir honum. Páll hugsaði með sér að líklega væri Brandur að spara skóna enda skór dýrir.
Strákarnir voru ungir og stæltir og voru ekki nema rúmar tvær klukkustundir uppá topp Tröllakirkju. Þar var ægifagurt útsýni og hvíldust piltarnir vel og borðuðu nestið sitt. Páll horfði yfir heiðina þar sem nýi upphleypti vegurinn náði norður á
miðja heiði. Þarna var hann búinn að puða frá í byrjun júní í skítaveðri. Fyrst í vorkuldum og síðan í látlausu votviðri. Vinna féll þó aldrei niður og Páli leiddist ekki. Vatnsdalsfjallið sést vel og framundan því Ásarnir þar sem móðir hans býr með mörgum af systkinunum. Tveir viðburðarríkir vetur í Reykholti eru nú liðnir síðan Páll fór að heiman. Hann hefur reynt að bregðast ekki metnaði móður sinnar og hans eigin metnaði því hann var með þeim hæstu í prófunum og skaraði fram úr í leikfimi, leiklist og ræðumennsku. Páll hugleiðir að nú hafi hann endanlega yfirgefið heimahagana. Nú væri hann í sumarvinnu á heiðinni og ekki veitti af að safna peningum til næsta vetrar því Kennaraskólinn væri framundan í haust og dýrt að halda sér uppi í Reykjavík.
Strákarnir skiptu nú liði. Páll og tveir aðrir héldu aftur í tjaldbúðirnar en hinir þrír héldu áfram vestur í Dali. Í þeirra hópi var Brandur berfætti og gekk hann skólaus niður af fjallinu. Þeir Brandur komu til byggða að Skarði í Haukadal og fengu þar hinar ágætustu viðtökur. Komu þeir aftur heim til tjalda sinna á Holtavörðuheiði kl. 7 um kvöldið, eftir 10 tíma fjarveru.
Febrúar 1940
Það blés köldu á Viðeyjarsundi í febrúar 1940 þegar Páll reri þar frá Viðey í Vatnagarðana. Hann var á leið í bæinn til þess að lyfta sér upp. Kannski kæmist hann á ódýra dansskemmtun? Við róðurinn stytti hann sér stundir með því að rifja upp atburði síðustu ára. Hann lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands vorið 1937 eftir tveggja vetra nám. Næstu tvo vetur kenndi hann við Mýrarhúsaskóla, en þennan veturinn kenndi hann í Viðey. Skólinn heyrði undir Mýrarhúsaskóla og hafði verið freistandi fyrir Pál að kenna þar vegna ódýrs uppihalds. Nemendafjöldinn var svo sem ekki stór, 14 börn á aldrinum 6 til 13 ára. Það þurfti að halda vel á spöðunum í fjármálunum og var hann ánægður með að hafa bara eytt tæpum tveimur krónum í skemmtanir það sem af var vetri. Hann smakkaði ekki brennivín og sparaði því stórt þar.
Páll bjó í Björnshúsi, kenndu við Björn Bjarnason og var í fæði þar skammt frá hjá systur Björns, Jóhönnu í Jóhönnuhúsi. Páli fannst nafngiftirnar á húsunum ekki frumlegar þótt Jóhanna hefði sýnt ákveðin frumleika í nafngift á syni sínum. Hún skýrði barnið Örlög. Páli varð starsýnt á þetta nafn í bekkjarkladdanum og spurði því Jóhönnu hvort nafnið væri ekki misritað. Ætti það ekki að vera Örlygur? Jóhanna sagði nafnið rétt ritað. Það hefðu verið ákveðin örlög að barnið kom undir og hún hefði því talið rétt að skýra drenginn Örlög. Páli mislíkaði þetta og tókst að leiða Jóhönnu það fyrir sjónir að hún gæti ekki látið drenginn burðast með þetta nafn í gegnum lífið vegna einhverra sérskoðana hennar á því hvernig barnið kom undir. Féllst hún að lokum á rök Páls og var nafni barnsins breytt. Hét drengurinn eftir það Örlygur og var Hálfdánarson.
Kennsluveturinn í Viðey yrði brátt á enda og var Páll búinn að leggja drög að því að taka stúdentspróf utanskóla þetta vorið. Hann yrði að lesa vel fyrir prófin og ætlaði sér tvo mánuði í stífan lestur. Hann fengi herbergi á Stýrimannastíg og gæti þar einbeitt sér að lestrinum. Páll var heppinn að vera ekki einn í þessu því Guðrún Stephensen sem var samtíða honum í Kennaraskólanum ætlaði líka að taka stúdentsprófið utanskóla í vor. Þau höfðu hist og rætt námsefnið. Hann varð nú að játa með sér að vera svolítið skotinn í henni og grunaði að hún væri honum ekki mótfallinn. Þrátt fyrir það var sambandið ekki of náið og þræddi hárfína línu siðseminnar. Á vissan hátt blóðlangaði hann að ganga lengra og láta undan losta sínum, en bar of mikla virðingu fyrir henni til þess að knýja það mál fram með áfergju. Betra að gera það á öðrum vettvangi.
Vor og sumar 1940.
Vorið 1940 var Páll í stífum próflestri til stúdentsprófs utanskóla. Þann 10. maí var hann við lestur í herbergi vestur í bæ er hann heyrði háreysti utanhúss. Hann fór út og gekk út á Túngötu og sá herbíla og fjölda hermanna á götunni. Páll spurði nærstaddan mann:
- Hverjir tóku Ísland í nótt?
- Bretar, var svarið.
- Allt í lagi, sagði Páll og fylgdist skamma stund með aðförum hermannanna við Túngötu 18, þar sem þýska sendiráðið var til húsa. Rölti síðan niður á Heitt & kalt og fékk sér hádegismat.
Páll lauk stúdentsprófinu um vorið.
Vinkona hans Guðrún Stephensen sem útskrifaðist með honum úr Kennaraskólanum vorið 1937 tók einnig stúdentstsprófið utanskóla þetta vor. Fimm síðastliðin sumur hafði Páll unnið í vegavinnu á Holtavörðuheiði. Það voru góðir tímar en nú vildi hann breyta til. Vegna hernámsins var mikið að gera við að reisa bragga og byggja hús. Það var mikil eftirspurn eftir iðnaðarmönnum svo Páll gerði sama og aðrir. Keypti sér hamar og sög og var í Bretavinnunni þetta sumar.
Haustið 1940 fór hann til Keflavíkur. Kenndi þar næstu tvo vetur og var í sumarvinnu í Skipasmíðastöð Njarðvíkur.
1943
Páll minntist orðatiltækisins „tímarnir breytast og mennirnir með” þegar honum varð hugsað til breytinga á högum sínum síðustu árin. Í fyrradag varð hann tuttugu og sex ára og loksins kominn á beina braut varðandi nám og framtíðaráform. Hann innritaði sig í norrænu við Háskólann eftir stúdentsprófið 1940, en sinnti því námi lítið enda ekki beint á hans áhugasviði. Það var líka óhægt um vik að sækja tíma vegna kennslu og vinnu í Keflavík. Honum féll vel að kenna en fannst það tæpast næg lífsfylling. Hann brann í skinninu að fást við stærri verkefni. Páll var í sumarvinnu í Skipasmíðastöð Njarðvíkur þegar andinn kom yfir hann:
- Strákar, ég er hættur í dag og verð að taka rútuna í hvelli til Reykjavíkur og innrita mig í lögfræði. Ef ég geri það ekki þá er hræddur um að mér kunni að snúast hugur. Bless, þið skilið þessu til Bjarna forstjóra. Hann skilur málið.
Stríðið geisaði enn. Bretar hernámu Gamla Garð 1940 og erfitt var um húsnæði fyrir stúdenta í Reykjavík. Páll og fleiri stúdentar gistu þennan vetur í kjallara háskólans þar sem líkskoðun hafði áður farið fram. Páll las af kappi undir fyrrihlutaprófið í lögfræðinni. Í fyrravor hafði hann gerst formaður Ungmennafélags Reykjavíkur og minntist þess hve mikla áherslu hann lagði á bindindismálin þá, enda neytti hann ekki víns. Margt hafði breyst. Háskólalíf og stúdentafagnaðir með tilheyrandi söngvum og skálaglamri. Svo voru það kvennamálin. Stúlka í Keflavík, Kristín Gísladóttir gekk með barni hans sem var líklega getið í ágústmánuði og væntanlegt í heiminn í maí 1943. Þau Kristín höfðu átt góðar stundir, en ekki tekið upp varanlegt samband. Páll minntist vandræðalegrar uppákomu þegar Gísli faðir Kristínar og Erlingur bróðir hennar gerðu sér ferð til Reykjavíkur á fund Páls. Þeir inntu hann eftir því hvort hann ætlaði sér eitthvað með stúlkuna en Páll sagði þeim að svo væri ekki. Feðgarnir voru sáttir við þetta svar. Vildu bara hafa málin á hreinu og vita hvort Páll ætlaði ekki kannast við væntanlegt faðerni. Páll sagðist ekki hafa ástæðu til að efast um að hann væri valdur að þunguninni og endaði þessi fundur í fullum vinskap.
Ástamálin gerðust nú flókin því Guðrún Stephensen sem Páll var í vinfengi við áður en hún hélt til Ameríku 1940 var nú komin aftur heim. Páll hafði skrifast á við hana en kynni þeirra voru nú orðin nánari en áður. Hann hafði strax sagt henni frá óléttu stúlkunni í Keflavík og að sambandi þeirra væri lokið. Guðrún var að fara til vinnu á Kleppjárnsreykjum um þessar mundir og kom það sér vel fyrir Pál og próflesturinn.
Páli datt nú í hug að koma betra skikk á líf sitt með eftirfarandi fyrirheitum:
*Fyrirheit um betra líferni.
Til þess að verða kynni að mér heppnaðist að ljúka prófi í fyrrihluta lögfræði á komandi vori, getur það ekki orðið nema af einni ástæðu, þ.e.a.s., að ég hef horfið frá villu míns vegar og tekið upp heilbrigðara líf. Því heiti ég sjálfum mér því, frá þessum degi að telja,
að drekka vín eigi oftar en einu sinni í mánuði hverjum, að reykja ekki meira en 1 cigarettu (eða vindil) á viku, að hafa aldrei holdleg mök við kvenmann oftar en einu sinni í viku, að reyna eins oft og föng eru á að vera kominn í rekkju kl. 12 e.h., að lesa minnst 4 klt. á degi hverjum.
Enginn getur leyst mig frá þessu heiti nema ég sjálfur, með áritun á þetta blað. Bergstaðastræti 72, 31/1 1943 Páll S. Pálsson (sign)”
Það var erfitt að standa við sum fyrirheitin svo Páll áritaði blaðið:
„Fyrirheit þetta hélt ég næstum því út febrúarmánuð. Árangur: Meðaltal á dag 4,8 tímar lestur.
Frá þessum degi að telja leysi ég mig frá heitinu.
Rvk 3/3 1943 Páll S. Pálsson”
1945. Hjúskapur og fyrsta barn.
Páll var önnum kafinn í próflestri vorið 1945 og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum um vorið. Hann tók sér þó tíma til þess að kvænast Guðrúnu Stephensen 16. apríl 1945. Hún var ófrísk en það var svo mikið húsnæðisekla í Reykjavík á þessum tíma að þau gátu ekki byrjað að búa strax. Páll bjó á Garði en Guðrún hjá móður sinni.
Þegar barnið fæddist fæddist þann 3. júlí, fengu hjónin á leigu herbergi og eldhús við Bræðraborgarstíg. Það varð síðan úr að Páll réði sig sem Garðprófast og fylgdi stöðunni tveggja herbergja íbúð á fyrstu hæð á nýja Garði með aukaeldhúsi í kjallara.
Í júnímánuði 1945 réði Páll sig til starfa hjá Félagi íslenskra iðnrekenda, jafnframt því að vera Garðprófastur.
1949. Flogið til Kaliforníu.
Páll hafði verið framkvæmdastjóri Félags íslenskra iðnrekenda í nokkur ár og unnið mikið með Kristjáni Jóhanni Kristjánssyni, forstjóra Kassagerðarinnar, sem var einnig formaður stjórnar Loftleiða. Í byrjun maí 1949 hringdi Kristján í Pál og sagðist vera að fara með Geysi í klössun til Kaliforníu. Hann bað Pál að koma með sér til aðstoðar í samningagerð um viðgerðina. Páll tók vel í það og vildi taka Guðrúnu með ef hún fengist til þess að yfirgefa ungana þrjá í mánuð. Hringdi því heim. - Sæl Guðrún mín, er þig ekki farið að langa aftur til Ameríku?
- Jú, auðvitað. Af hverju spyrðu svona?
- Kristján Jóhann var að spyrja mig hvort ég vildi ekki koma með honum til Kaliforníu. Geysir er að fara í klössun og vélin hálftóm. Hann vill líka hafa mig með til halds og trausts. Segist ekki of sterkur í enskunni og gott sé að hafa lögfræðing til aðstoðar í samningum um viðgerðina. Ég sagðist ekki fara nema þú kæmir með. - Hvað um börnin?
- Það leysist. Treystirðu ekki mömmu þinni og húshjálpinni til að sjá um þau með aðstoð annarra?
- Jú, það ætti að ganga. Hvenær á að fara?
- Á föstudagskvöldið.
- Kemurðu með?
- Ertu að meina eftir tvo daga?
- Já.
- Auðvitað kem ég með,Palli minn. Þetta er stórkostlegt. Vonandi bjargast þetta með börnin.
- Bless. Sjáumst í kvöld.
1952. Kynningarnám í Englandi.
Árið 1952 dvaldi Páll 6 mánuði á Englandi á vegum Alþjóðavinnumála stofnunarinnar við kynningarnám. Fór utan í febrúar og dvaldi fyrst í London í 3 1/2 mánuð og síðar í suðvestur Englandi aðallega í Bristol. Páll kom þó heim í stutt páskaleyfi að hitta Guðrúnu og börnin fimm. Eftir heimkomuna flutti hann nokkur erindi í ríkisútvarpið um vinnumál. Var þar fjallað um vinnumiðlun, leiðbeiningar um stöðuval, öryggisráðstafanir á vinnustöðum og samskipti atvinnurekenda og verkamanna í kjaramálum. Meðan á dvölinni stóð hélt Páll dagbók á lausum smáblöðum sem hann sendi Guðrúnu eiginkonu sinni jafnóðum. Dagbókin hefur varðveist og fer hér á eftir færsla sem gerð er á meðan Páll var í Bristol:
7. júní. Laugardagur.
Vaknaði snemma vel hvíldur, snæddi árbít í skyndi og hélt síðan til járnbrautarstöðvarinnar.
Náði í 7 45 lestina til London á síðustu mínútunum. Ferðin tók aðeins 2 1/2 tíma. Á leiðinni las ég pésann „Works Counsils”. Frá Paddington stöðinni í London tók ég neðanjarðarlestina til Viktoríu-stöðvarinnar og þaðan gekk ég til íslenska sendiráðsins í Buckingham Gate. Ungfrú Bryndís Arason tjáði mér að Eiríkur Benedikts hefði einn lykla að kjörgagnageymslu og væri hann ekki viðstaddur. Ég neitaði algjörlega að sætta mig við það að slíkt stæði í vegi fyrir því að ferð mín frá Bristol til London bæri tilætlaðan árangur. Fór hún þá inn til sendiherrans, Agnars Kl. Jónssonar og þar gaf hann mér gögnin í hendur.
Skrifaði ég nafnið Hr. Ásgeir Ásgeirsson, greinilega á kjörseðilinn og hugsaði með sjálfum mér að það væri heldur kaldhæðnislegt að ég sæti hér undir handleiðslu tengdasonar Sr. Bjarna Jónssonar og kysi svo Ásgeir en ekki Bjarna. En það verður nú að hafa það.
Gott þótti mér að þessari skyldu við föðurlandið var aflokið. Langt viðtal átti ég við sendiherrann um alla heima og geima. Gaf hann mér boðskort að 17. júní síðdegisdrykkju í sendiráðinu, en ég sagði honum að litlar líkur væru fyrir því að ég gæti komið þá til London.
Frá sendiráðinu gekk ég í sólskini og góðu veðri í gegnum hinn fagra en allt of fjölfarna James Park.
[……. framhald um heimferðina.]
8. júní. Sunnudagur.
Fór fremur seint á fætur og tók lífinu með ró. Fyrst af öllu fór ég í gegnum það sem ég átti ólesið af blaðaúrklippum að heiman. Meðal þess var eintak af Landvörn, blaði Jónasar frá Hriflu, að mestu helgað Ásgeiri Ásgeirssyni. Það eru ein viðbjóðslegustu skrif, sem ég hef lengi séð. En það er gaman að lesa það, eins og allt sem þessi Dr. Jeckill og Mr. Hyde hefur skrifað. Að lestrinum loknum hnoðaði ég óþverranum saman í hendi mér og fleygði honum í bréfakörfuna. Bréf fékk ég frá Gísla í Keflavík, þar sem hann segir mér að Hlöðver eigi nú tvo yngri bræður í Ameríku. Hann hefur náð fullu valdi á málinu, stundar skólanámið af áhuga og er efstur í sínum bekk. Sendi ég gamla manninum nokkur þakkarorð fyrir bréfið. [..framhald þennan dag.]”
1956. Brottrekstur.
Á árum sínum hjá Félagi íslenskra iðnrekenda (FÍI) var Páll áberandi í þjóðlífinu. Hann skrifaði í blöð, flutti útvarpserindi og kom víða fram fyrir hönd iðnaðarins. Páll var metnaðargjarn og naut þess að vera í sviðsljósinu. Sumir iðnrekendur voru ekki jafnánægðir með þessa skipan mála og fannst Páll orðinn full fyrirferðarmikill. Þegar svo kom að því á árunum 1955-56 að Páll, sem formaður bankaráðs Iðnaðarbankans gekk í að taka til í lánveitingum bankans og fann að því að 2-3 stóriðnrekendur og hluthafar í bankanum væru með of stórt hlutfall útlána bankans, þá fannst þeim nóg komið. Þeir voru í stjórn FÍI og ráku Pál fyrirvaralaust úr starfi framkvæmdastjóra. Þeir þoldu ekki að starfsmaður félagsins væri allt í öllu og skyggði á iðnrekendurna sem áttu félagið.
Páll sat á barnum. Var dapur og hugsaði um hvernig í ósköpunum hann ætti að framfleyta sístækkandi fjölskyldunni. Sjöunda barnið nýfætt og hann skyndilega atvinnulaus í byrjun sumars 1956. Hann var búinn að opna lögmannsstofu en lítið að gera.
- Sæll Páll. Hví situr þú hér svo dapur á svip? Var þarna kominn Kristján Jóhann í Kassagerðinni, vinur Páls.
- Ég er dapur vegna þess að ég var rekinn, eins og þú veist, en hef nú opnað lögmannsstofu og hef ekkert að gera. Veit varla hvernig ég á að brauðfæða fjölskylduna.
- Páll minn, elsku karlinn. Þessu reddum við. Ég á nóg verkefni fyrir þig og svo höfum við ráð með útvegun annarra verkefna. Nú rífur þú þig upp úr þessu og við drekkum og skálum sem fyrr.
Tóku þeir vel á drykkjunni þennan daginn og allt gekk síðan Páli í haginn með verkefni og tekjur í lögmennskunni.
1957.
Páll hafði alltaf haft drauma um að komst áfram í stjórnmálum. Tækifærið bauðst haustið 1957 þegar fulltrúaráð sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hélt prófkjör fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Páll gaf kost á sér, varð í 8 sæti í úrslitum prófkjörsins og þar sem flokkurinn hafði meðbyr átti hann von á að komast í borgarstjórn. Því miður fyrir Pál var prófkjörið ekki bindandi fyrir uppstillingarnefnd og fór svo að nefndin setti hann í 13 sæti listans. Í kosningunum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 10 borgarfulltrúa af 15 og hefði Páll því komist í borgarstjórn ef honum hefði ekki verið ýtt til hliðar. Páli sárnaði þetta. Á þessum árum var ekki gróið um heilt í flokknum á milli forystunnar og Gunnars Thoroddsen sem hafði stutt alþýðuflokksmanninn og tengdaföður sinn Ásgeir Ásgeirsson í forsetakosningunum 1952. Páll var þekktur stuðningsmaður Gunnars og hefur eflaust goldið þess. Ef til vill voru sumir þeirra er réðu þarna málum ekki heldur búnir að fyrirgefa Páli þegar hann sigraði hægrimennina í stúdentaráðskosningunum 1943. Páll starfaði í borgarstjórn sem varamaður og naut átaka í stjórnmálunum. Hann vonaði að einhvern tímann kynnu að opnast möguleikar á þingsæti?
1972. Við Sauðaneskvörn.
Það var fallegt við Sauðaneskvörnina á laugardagsmorgni í byrjun ágúst árið 1972. Páll sá lax bylta sér neðarlega í hylnum og veiðimannshjartað sló hraðar. Þó var það föðurhjartað sem sló þessa stundina. Hann horfði á tvo elstu syni sína, þá Gísla Hlöðver og Stefán, gera sig klára til veiða. Stefán leiðbeindi Hlöðver sem hafði aldrei gengið til laxveiða fyrr enda uppalinn í Ameríku frá sex ára aldri hjá Kristínu móður sinni úr Keflavík og amerískum kjörföður. Kom í heimsókn 1965 og var nú kominn til Íslands öðru sinni, sjö árum síðar. Það var tveggja ára aldursmunur á bræðrunum, en Páli fannst þeir ótrúlega ólíkir í útliti. Annar hraustlegur og útitekinn en hinn fölur með holdafar úr kalkúnabeltinu í Ameríku. Líklega alltaf inni að stúdera enda doktor í stjarneðlisfræði.
Stefán byrjar að kasta flugunni og ekki líður á löngu þar til hann setur í lax. Ótrúlega veiðinn strákurinn. Páll ákveður að rjúka ekki til og aðstoða við löndunina heldur láta fara vel um sig á grasbalanum og njóta augnabliksins. Hugleiðir barnalán sitt og börnin sjö sem hann á með Guðrúnu auk Stefáns. Það er gæfa að eiga níu heilbrigð börn á aldrinum fjórtán til tuttugu og níu ára. Hann horfir upp til Hnjúkanna og Sauðaness. Hvílík breyting á lífi síðan hann þrælaði þarna í æsku við kröpp kjör. Það er ekki svo langt síðan hann fór að heiman en samt er hann búinn að ljúka háskólanámi, var málpípa iðnaðarins í tíu ár og er nú meðal afkastamestu og virtustu lögmanna landsins. Móður hans hefði líkað þetta og blessuð sé minning hennar.
Stefán hefur landað laxinum og er nú að beita maðki fyrir Hlöðver sem hafði ekki lært að kasta flugu. Það hafði líka gefist vel að renna maðki efst í kvörnina þar sem straumurinn er og dýpið mest. Sauðaneskvörnin var uppáhaldsveiðistaður Páls enda báðir bakkarnir í landi Sauðaness og því alfarið í heimahögum hans. Faðir hans heyjaði á flæðunum fyrir ofan kvörnina og eitt sinn er hann var þar við slátt bylti vænn lax sér við árbakkann. Páll kastaði frá sér orfinu, henti sér á laxinn, sporðtók hann og landaði. Páll trúði þessari sögu vel því faðir hans hafði verið tæplega meðalmaður á hæð, hvatlegur í hreyfingum og fljótur að taka ákvarðanir. Páll saknaði þess að hafa ekki kynnst föður sínum betur, en hann hafði misst heilsuna meðan Páll var í æsku. Þurfti faðir hans oft að dveljast á sjúkrahúsi og lá þar þungar legur. Hann lést 24. okt. 1932. Toppurinn á stönginni hjá Hlöðver tifar og Stefán leiðbeinir honum um réttu handtökin. Segir honum að slaka maðknum örlítið og síðan taka þéttingsfast á línunni. Stöngin kengbognar og laxinn tekur á rás. Ekki líður á löngu þar til búið er að landa vænum laxi. Hvílíkur morgun.
1976. Fálkaorða.
Páll sat heima í Steinnesi á nýjársdegi árið 1976 og horfði yfir Skerjafjörðinn til Bessastaða. Þar hafði hann verið fyrr um daginn að veita viðtöku riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu. Hann hafði farið á hestbak í morgun og smakkað vín áður en hann mætti á Bessastaði í hvítri rúllukragapeysu, sem stakk í stúf við fíneríið. Hann hélt áfram að fá sér í staupinu eftir að heim var komið frá Bessastöðum. Páll hugleiddi af hverju nú væri svo komið fyrr honum að hann gæti ekki gætt sín á Bakkusi þegar mikið lægi við. Öðruvísi honum áður brá. Var kannski svo komið að honum væri sama hvernig mál þróuðust. Honum hafði gengið vel í lífinu, alið upp fjölda barna, aflað fjár og notið virðingar. Var ekki riddarakrossinn viðurkenning á góðu lífsstarfi? Hann var eiginlega búinn að vera formaður Íslands. Formaður í skólafélögum, ungmennafélögum, stúdentaráði, Barnavinafélaginu Sumargjöf, Húseigendafélaginu, Lögmannafélagi Íslands, formaður í ótal nefndum og ráðum auk formennsku í stjórnum hlutafélaga. Var hægt að gera betur? Var áhuginn á brott? Hann yrði sextugur í lok mánaðarins og því mörg starfsár eftir.
Auðvitað hafði ekki allt gengið eftir. Draumar hans um framgang í stjórnmálum höfðu ekki ræst þótt hann hefði verið varamaður í borgarstjórn. Ekki komst hann á þing. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Húnaþingi var lengi Jón Pálmason frá Akri, stórvinur Páls og ræddu þeir oft stjórnmálin og framtíð Páls í þeim efnum. Páll hafði á sínum tíma drauma um að taka við þingsæti Jóns er hann hyrfi af þingi. Það gekk þó ekki eftir því seinna kom í ljós að Pálmi sonur Jóns gaf kost á sér til þingmennsku og var þá loku fyrir það skotið að Páll færi í framboð í Húnaþingi. Páll hafði ekki hugað að þingframboði annars staðar.
Páll varð að viðurkenna að Kristján Eldjárn hefði komið vel fram við hann fyrr um daginn þótt Páll hefði verið frekar óheflaður í framkomu og útgangurinn á honum ekki til fyrirmyndar. Páli líkaði ávallt vel við Kristján þótt hann hefði unnið gegn framboði hans í forsetakosningunum 1968. Þá studdi Páll að sjálfsögðu Gunnar Thoroddsen, en svo fór sem fór. Var ekki kominn tími til að gera eitthvað í þessu með Bakkus? Víst er að Sesselja móðir hans væri ekki ánægð með þessa drykkju. Ekki er gott að bregðast henni og rétt að taka sig á.
1980.
Páll sat eitt sumarið enn við Sauðaneskvörnina og horfði til heimahaganna. Stefán var búinn að kasta flugunni og setja í lax enn eina ferðina. Klukkan var að verða eitt og komið að lokum veiðidagsins í þetta skiptið. Veiðin hafði verið góð en eitt var ekki í lagi að mati Páls. Hann hafði látið eftir sér að fá sér afréttara og þá fleiri en einn þennan morguninn, langaði í meira. Hann hugleiddi hvar hann væri eiginlega staddur í lífinu? Hafði eitthvað breyst til hins betra á síðustu árum? Lögmennskan var lítt breytt og drykkjan frekar aukist ef eitthvað var. Fátt til að gleðjast yfir. Hann hafði nýverið reynt að koma vini sínum Pétri í forsetastólinn en hinir tveir frambjóðendurnir voru þekktari og fengu fleiri atkvæði. Það voru vonbrigði. Líklega hefur Pétur verið of lengi týndur í sendiherrastörfum erlendis. Hinir frambjóðendurnir voru þekktir úr sjónvarpi og landsmálum.
Pétur var sannur vinur. Þeir höfðu kynnst á Holtavörðuheiðinni og verið að hluta samtíða í laganáminu. Pétur hafði reyndar áður útskrifast úr viðskiptafræðideild. Á háskólaárunum voru þeir báðir stundakennarar í Kvennaskólanum og kölluðu stelpurnar þá postulana, sbr. Pétur og Pál. Það voru skemmtilegir tímar. Páll horfði til Sauðaness og minnist enn á ný móður sinnar. Henni hefði mislíkað þetta brennivínssull hans verulega. Páli fannst helvíti hart að hafa náð svona langt í lífinu og stjórnað mörgu en geta svo ekki haft stjórn á drykkjunni. Hann hafði strengt ýmis heit um ævina og hét í þetta sinn á minningu móður sinnar að leysa þetta drykkjuvandamál. Það gæti kallað á að leita aðstoðar og yrði þá að hafa það. Málið þyrfti að leysa eins og svo mörg önnur á lífsleiðinni.
1981. Laxá á Ásum
Um miðjan sjötta áratuginn keypti Páll fjórðung Sauðanesjarðarinnar af Gísla bróður sínum. Frá þeim tíma varð samband hans við heimahagana nánara og margar ferðir farnar á hverju sumri þangað norður, oftast til laxveiða í Laxá á Ásum. Norðurferðirnar voru hans líf og yndi og í raun miklu meira en veiðiferðir því hann naut þess að spjalla við bændur og búalið og spranga um átthagana. Páll reisti lítið sumarhús á landi sínu og nefndi það Laxabrekku. Ekki valdi hann því stað í skjólsælli lautu eins og margra var siður heldur reisti hann það hátt uppi í Hnjúkum þar sem sér yfir Sauðanesjörðina og Ásana. Þarna leið Páli vel við frumstæðar aðstæður.
Í sumarbyrjun 1981 dvaldi Páll sem oftar í Laxabrekku og má sjá þessa færslu í dagbók hússins:
„3-4 VI 1981
Ekki var amalegt að koma að Laxabrekku frekar en endranær. Frekar var áin daufleg en þó tókst að tvöfalda þann afla er kominn var á land úr móðunni miklu nú í ár, þannig:
Stefán Pálsson 11 pd. hr. Dulsahylur
——“——— 13 “ “ “ “
——“——— 10 “ “ Klapparkvörn
——“——— 12 “ “ Runki
Black Drury <P.S.P. 4 “ “ Sauðaneskvörn
og Ben. Ól. 12 “ “ Húnstaðahorn
Utan þessa veiddust 9 þokkalega vænir silungar í net vor í Laxárvatni. Það þótti til tíðinda að Páll Essur smakkaði ekki dropa í túrnum.
B. Ólafsson (sign)”
Þegar Páll leit þessa færslu hugleiddi hann lokaorðin. Þetta var rétt hjá Benedikt, hann smakkaði ekki dropa í túrnum og gat ekki munað hvenær slíkt henti hann síðast í laxveiðitúr. Nú var hann líka nýkominn úr erlendum herbúðum þar sem hann hafði fengið leiðbeiningar um vímulaust líf og heitið sjálfum sér því að bragða ekki oftar áfengi. Honum hafði reyndar liðið vel í þessum laxveiðitúr og ekki saknað vínsins.
1983.
Þann 29. janúar 1983 varð Páll sextíu og sjö ára. Hann sat sem endranær í Steinnesinu og horfði út á Skerjafjörðinn. Hugleiddi stöðuna. Löggilt gamalmenni eins og sagt var en fannst hann nú yngri og sprækari en hann hafði verið um árabil. Það var guðsblessun að hafa hætt drykkjunni tveimur árum fyrr. Auðvitað erfitt að játa sig sigraðan og fara í meðferð en verið fyllilega þess virði. Orkan sem áður fór í brennivínið hafði fengið útrás í skapandi verkefnum. Lögmennskan blómstraði. Handrit að bók um Laxá á Ásum var langt komið og Páll var búinn að þýða spakmælabók bindindismannsins þar sem bæn hvers dags er sett fram. Þrjúhundruð sextíu og fimm blaðsíður af góðum ráðum. Þessi spakmælabók hefur áður verið þýdd en Páll vildi koma henni á betra mál. Hann snaraði líka spakmæli úr Sanskrít þannig:
Líttu til dagsins í dag
því hann er lífið
hið eina sanna lifandi líf
Á skammri braut hans birtist allt
reynsla og sannindi tilverunnar
unaðssemd gróandans
glæsileiki athafnarinnar
dýrðarljómi valdsins
Því dagurinn í gær er aðeins draumur
og dagurinn á morgun er bara sýn
En dagurinn í dag
sé honum vel varið
breytir öllum gærdögum
í hamingjudraum
og varpar birtu vonarinnar
á alla morgundaga.
Líttu því með velþóknun
til dagsins í dag.
Páll fékk hjartastopp seinnihluta maí 1983. Var lífgaður við en lá meðvitundarlaus á spítala þar til hann lést 11. júlí 1983. Guðrún lifði mann sinn og tuttugu árum betur, andaðist 17. desember 2003.
Kvöldstundir með Guðrúnu Stephensen. Skráð af Stefáni Pálssyni.
Kvöldstund með mömmu
Eftirfarandi er unnið úr viðtölum við Guðrúnu Guðbjörgu Stephensen f. 11. maí 1919 í Selkirk, Manitoba í Kanada. Viðtölin tóku nokkur barna hennar með góðum hléum á árunum 2000 og 2001, og var tilgangurinn sá að fá fram svipmynd af uppvaxtarárum hennar og högum foreldra hennar. Til þess að gera efnið læsilegra er það sett fram sem viðtal mitt við Guðrúnu, en systkini mín eiga allan heiður skilið vegna þeirra framlags. Efnið er fyrst og fremst hugsað til fróðleiks fyrir afkomendur Guðrúnar.
Stefán Pálsson, elstur barna Guðrúnar.
Ég sit á rúmstokk aldraðrar konu og dáist að gráu, sterku og liðuðu hárinu. Andlitið er orðið mjóslegið og fyllingu vantar í holdið á handleggjunum.Hún lygnir aftur augunum og er værð yfir henni, en ég veit að hún sefur létt, því þetta er móðir mín. Hún hefur alla tíð sofið létt og held ég að sannist best á henni málshátturinn; þunnt er móður eyrað.
Hún bar mig undir belti og ól mig upp, elstan í átta systkina hópi. Þótt hún hafi alla tíð verið hin eina sanna mamma, þá spyr ég nú sjálfan mig: Hvað veit ég eiginlega um þessa konu?
Hún fæddist í Kanada fyrir rúmum áttatíu árum og foreldrar hennar voru íslenskir, en höfðu flutt til Kanada hvort í sínu lagi. Hvað veit ég eiginlega um afa og ömmu? Af hverju fóru þau til Kanada?
Mamma rumskar og ég nota tækifærið og spyr:
Mamma, þú ert fædd í Selkirk í Kanada 1919. Hvernig stóð eiginlega á að afi og amma voru þar og hvað getur þú sagt mér um þau?
Stebbi minn, hann afi þinn Stefán Hansson Stephensen var fæddur á Hlemmiskeiði á Skeiðum í Árnessýslu og samkvæmt kirkjubókum er hann sagður fæddur þann 25. nóvember 1872. Hann sagði þó alltaf sjálfur að hann hefði verið fæddur þann 23., en vegna annríkis prestsins hafði fæðingin ekki verið skráð í kirkjubækur fyrr en þann 25. nóvember. Langafi þinn Hans Stefánsson Stephensen hafði flutt að Hlemmiskeiði þegar hann kvæntist Guðrúnu, sem var dóttir Ögmundar bónda á Hlemmiskeiði. Hans keypti síðar jörðina Hurðarbak í Kjós og ólst Stefán afi þinn þar upp þar til fjölskyldan flutti til Reykjavíkur.
Nú ætlar mamma einnig að segja mér frá systkinum afa þeim Ögmundi, Þórunni og Guðrúnu, en ég reyni að stoppa hana af því ég vil vita meira um afa sjálfan.
Þar sem þér kippir í kynið verð ég samt að segja þér eitt um hann langafa þinn Hans, að hann var mikið hraustmenni. Það er sagt frá því að eitt sinn er hann var á gangi niður Laugaveginn hafi Spánverji komið þar út af veitingastað og slangrað utan í Hans. Hans hrinti honum frá sér, en þá tók Spanjólinn upp hníf og ætlaði að ráðast á hann. Hans sló manninn niður, en þá streymdu Spánverjar út af veitingastaðnum til að hjálpa landa sínum. Áður en yfir lauk lágu fjórtán í götunni og mun langafi þinn víst hafa tekið tvo Spánverja í einu og skellt saman kollum þeirra. Hann stikaði síðan reiður í gegnum bæinn og þegar hann kom heim í Hákot í Fischersundi hratt hann hurðinni svo kröftuglega upp að læsing brotnaði. Hann Hans langafi þinn var víst mjög sterkur og kvikur í hreyfingum, en ekki ofsafenginn og hann og Stefán bróðir hans annálaðir fyrir krafta.
Mamma, ég vil vita meira um afa.
Það er sagt um hann afa þinn að þegar hann var ungur á Hurðarbaki hafi honum þótt gaman að dansa og skemmta sér. Hann fór ríðandi á félagsskemmtanir eftir mjaltir á kvöldin og mætti svo galvaskur í mjaltir næsta morgun, eftir að hafa dansað alla nóttina. Hann kynntist stúlku, Guðrúnu Steinadótttur frá Valdastöðum í Kjós og gengu þau í hjónaband í desember 1905. Heimili þeirra var við Hverfisgötu í húsi sem afi þinn hafði byggt í félagi við aðra. Guðrún dó af barnsförum í september 1906 og barnið dó líka.
Afi þinn hafði þá unnið við smíðar í Reykjavík og hélt hann því starfi áfram eftir að Guðrún dó. Afi þinn missti þó síðar hlut sinn í húsinu því hann hafði skrifað uppá víxil fyrir trésmíðameistara vin sinn og þegar víxillinn féll á afa þinn þurfti hann að selja hlut sinn í húsinu við Hverfisgötu.
Fór afi þá vestur?
Nei, það varð síðar. Afi þinn vann við smíðarnar og var góður smiður. Hann var alltaf stoltur af því að hafa verið yfirsmiður við byggingu Konungshússins á Þingvöllum 1907, sem seinna var flutt til og nefnt Ráðherrabústaðurinn. Á þessum árum tók kona til í íbúð afa þíns sem hét Jónína Erlendsdóttir. Hún varð barnshafandi og ól barn í mars 1910. Það var Ásta hálfsystir mín. Afi þinn bjó þó aldrei með Jónínu.
Já, en mamma segðu mér eitt. Þegar ég var lítill botnaði ég aldrei í því hvernig Ásta gat átt systurina Fjólu, sem var ekkert skyld þér þótt þú værir líka systir Ástu. Hvað með Fjólu hálfsystur Ástu?
Hún Jónína Erlendsdóttir mamma Ástu giftist seinna Eggerti nokkrum og átti með honum Fjólu og Leó, sem þú manst eftir á Nesvegi 15.
Hvernig var sambandi afa við Ástu háttað?
Hann var alltaf í sambandi við hana þótt fjarlægðir væru miklar. Hann sendi henni ýmsa hluti og ég fór að skrifast á við hana strax og ég var ritfær.
Mamma, en Kanadaförin?
Stefán, afi þinn hélt til Kanada 1912. Það er lítið vitað um aðdragandann að för hans til Kanada, en ætla má að hann hafi verið óhamingjusamur vegna missis konu, barns og heimilis. Hann vildi því komast í nýtt umhverfi og voru margir þá á förum til Kanada. Ekki er vitað til þess að Stefán afi þinn hafi þekkt neinn fyrir vestan, en hann átti föðurbróður, Jónas Stefánsson Stephensen, sem flutt hafði til Winnepeg og síðan til Sascatchewan. Jónas hafði misst tvö börn í snjóflóðinu á Seyðisfirði þegar hús hans sópaðist út í sjó. Hann hélt þá með konu sína og þrjú börn til Kanada.
Afi þinn fór með skipi til Leith í Scotlandi, þaðan með skipi til Kanada og síðan með járnbraut frá ströndinni til Winnepeg. Þegar til Winnepeg kom, leigði hann húsnæði hjá íslenskum hjónum og vann hann við smíðar (húsbyggingar). Á þessum tíma kynntist hann Friðnýju Gunnlaugsdóttur ömmu þinni.
Nú sígur værð á mömmu og leyfi ég henni að dotta í friði. Á meðan reyni ég að gera mér mynd að afa mínum. Hann dó áður en ég fæddist, en af myndum teknum af honum á fimmtugsaldri virðist mér hann hafa verið sterklegur en samt góðlegur með hátt enni og hárprúður. Líf hans hefur ekki verið neinn dans á rósum fram að Kanadaförinni. Hann giftir sig 33ja ára, en missir eiginkonuna ári síðar af barnsförum og barnið líka. Hann kemur sér upp húsi, en missir það vegna ábyrgða á skuldum kunningja hans. Hann eignast barn í lausaleik er hann er 38 ára, en einhverra hluta vegna tekur hann ekki saman við barnsmóðurina. Síðan heldur hann fertugur út í óvissuna til Kanada. Ég velti því fyrir mér hvort hann hafi leitað huggunar í víni á þessum árum en mamma hefur sagt mér að svo hafi ekki verið. Honum hafi þó ávallt þótt brennivínið gott. Mótlætið virðist ekki hafa bugað hann og geri ég mér í hugarlund að hann hafi haft sterkan karakter.
Nú sé ég að mamma rumskar og finnst rétt að snúa talinu að ömmu.
Mamma, hvað viltu segja mér um ömmu Friðnýju?
Ja, hún amma þín var góð kona og mátti eins og afi þinn þola sitt framan af ævi. Hún fæddist 18. apríl 1884 í Hlíð í Álftafirði. Faðir hennar Gunnlaugur var bóndi og dagróðrarmaður, giftur Jónínu og áttu þau sjö börn. Þau misstu tvö barnanna. Eitt barnanna var Vigdís móðir Klöru, sem þú manst eftir af Nesveginum og annað barna hennar með seinni eiginmanni var Pétur hennar Jónínu á Skúlagötu 72.
Þegar mamma var telpa, þá seldu foreldrar hennar mjólk til norsku Hvalveiði-stöðvarinnar á Langeyri. Mamma var oftast send með mjólkina í brúsa og lærði hún smátt og smátt norskuna af fólkinu þar. Seinna voru Vigdís og mamma til skiptis í vist sem vinnukonur hjá stöðvarstjórafrúnni og alltaf síðan hafði mamma gott vald á norsku máli.
Nú leggst mamma í langar sögur af systkinum ömmu og er með ólíkindum hvað hún kann af þeirra högum að segja. Það mætti halda að hún hefði upplifað þetta sjálf. Ég reyni að takmarka hana við ömmusögu og tekst þokkalega. Mamma heldur áfram.
Mamma fór í barnaskóla í Súðavík. Hún var örvhent en mátti ekki skrifa með vinstri hendinni, samt skrifaði hún fallega með hægri höndinni. Hún vann á Ísafirði og Langeyri við sauma og fiskvinnslu. Mamma trúlofaðist seinna pilti frá Súðavík, Jóni Bjarnasyni, sjómanni, en sú trúlofun entist ekki. Hann hafði verið í löngum róðri á bát frá Ísafirði og hún var að vinna í Álftafirði. Mamma frétti að hann hefði verið í landi í 3 daga og hafði hún ekkert heyrt frá honum. Þegar hann kom, þá var hún að finna að þessu við hann, og þau urðu ósátt, og slitu trúlofuninni. Óvíst er að hún hafi vitað það þá að hún var orðin ófrísk eftir hann. Þegar hún sagði móður sinni frá þunguninni, þá sagði móðir hennar að hún vildi ekki að það fæddist lausaleikskrakki á sínu heimili.
Til stóð að mamma flytti að Langeyri til systur sinnarVigdísar er átti einnig von á barni, en þegar til kom, þá bauð Jónína amma, mömmu að koma heim að Hlíð og vera fram yfir það að hún ætti barnið. Hálfbróðir minn Pétur fæddist síðan 14. maí 1904 og var hjá afa sínum og ömmu á meðan mamma vann að heiman. Heimilið var trúað.
Elísabet systir mömmu, og tólf árum eldri, hafði gifst Einari ættuðum úr Húnaþingi. Fluttu þau hjónin til Kanada á árunum 1909 til 1910 með þrjú börn. Eitt barnanna var Valdheiður Lára eða Heiða eins og hún var kölluð. Þú manst eftir henni. Elísabetu langaði til að fá mömmu vestur til Kanada og það varð úr að hún fór 1913 þegar Pétur var 9 ára gamall. Ákveðið var að hún sendi eftir honum, ef hún gæti hugsað sér að ílendast. Hún og Pétur litli bjuggu á Ísafirði um tíma og var mamma í Kristilegum söfnuði þar kenndum við Arthur Gook. Söfnuður þessi líktist Hjálpræðishernum. Hún hafði lært eitthvað á gítar en hafði aldrei hljóðfæri á heimili. Líklega var það vegna fátæktar.
Nú byrjar mamma að segja sögu af gítar, sem Gunnlaugur bróðir mömmu gaf ömmu, en ég bið hana að geyma þá sögu til betri tíma og halda sig við Kanadaför ömmu.
Árið 1913 fór mamma álíka sjóleið til Kanada og Stefán afi þinn. Þegar hún kom til Winnepeg vann hún fyrst í þvottahúsi. Voru þá engin námskeið fyrir Íslendinga í ensku en hún lét innrita sig á námskeið hjá YMCA (KFUM) með norsku fólki og lærði þannig enskuna. Hún og flestir aðrir Vestur Íslendingar björguðu sér í ensku, en töluðu alltaf íslensku sín á milli og umgengust aðallega Íslendinga. Fór mamma næst að vinna í mötuneyti hjá Jóni Hall organista í íslensku kirkjunni en hann kenndi á hljóðfæri. Þar í mötuneytinu kynntist mamma Stefáni, afa þínum.
Nú sýnir mamma mér skrautlegt giftingarvottorð sem er í ramma uppi á vegg í svefnherbergi hennar. Þar stendur að afi og amma hafi verið “United in Marriage according to the ordinance of God and the laws of Manitoba on the 30th day of September in the year of Our Lord 1914 at Winnipeg.” Afi hefur þá verið 42 ára og amma þrítug.
Mamma, nú ert þú fædd vorið 1919 og er ljóst að foreldrar þínir hafa ekkert verið að flýta sér í barneignum. Hefur þú hugleitt þetta?
Það voru nú stríðsárin á þessum tíma, en annars veit ég ekki hvað skal segja. Pabbi var ekki kallaður í herinn og hafði alltaf vinnu.
Ja, nú nefnirðu nokkuð sem ég hafði ekki hugleitt. Afi hefur náttúrlega verið breskur þegn. Af hverju var hann þá ekki kallaður í herinn?
Það var vegna aldurs. Herskyldan miðaðist við fjörutíu ára aldur, en hann var orðinn fjörutíu og tveggja ára. Pabbi sagði mér að hann hefði fengið merki sem hann átti að bera til þess að sýna að hann væri ekki að koma sér undan herskyldu. Það gegndu annars margir Íslendingar herskyldu og voru drepnir á vígvöllunum í fyrri heimsstyrjöldinni.
Mamma, það vaknar núna spurning hjá mér með þessi bresku þegnréttindi. Hvernig var þessu háttað?
Ég var fædd kanadískur þegn og hafði breskt vegabréf fram eftir aldri. Þegar ég var í Bandaríkjunum á árunum 1940 til 1942 var ég með breska vegabréfið með íslenskri áritun. Ég varð ekki íslenskur ríkisborgari fyrr en við giftingu 1945. Ég veit ekki almennilega hvernig þetta var með pabba og mömmu. Allavega höfðu þau bresk vegabréf er þau fluttu síðar heim til Íslands og héldu við einhverjum réttindum með því að fara af og til í breska konsúlatið.
Hvernig voru heimilishagir fyrstu árin eftir að þú fæddist?
Þegar ég fæddist 11. maí 1919 bjó fjölskyldan í Selkirk í húsi sem pabbi smíðaði. Pabbi vann þar við smíðar. Pétur hálfbróðir minn kom út líklega árið 1921, þá sautján til átján ára. Hann kunni þá ekki ensku. Íslendingar höfðu oft þau ráð til að kenna enskuna að láta unglingana setjast á skólabekk í barnaskóla til að læra enskuna. Pétri leist ekkert á að sitja þarna með krökkum eins og illa gerður hlutur, sérstaklega þar sem hann var fluglæs á íslensku. Krakkarnir voru að læra að lesa og skrifa orð sem hann skildi ekki. Hann beit á jaxlinn og sat á skólabekknum í heila viku og gafst svo upp. Þá sagði hann við Stefán, stjúpföður sinn, "ég get allt fyrir þig gert, Stefán minn, annað en að sitja eins og bjáni í þessum barnaskóla og læra ekki neitt. Viltu ekki taka mig í smíðanám, lofa mér að smíða og vinna með þér.", sem hann gerði. Pétur varð þannig smiður og lærði ensku smátt og smátt. Á veturna fór Pétur á veiðar á Winnnepegosis vatni, og kom síðan aftur til Winnepeg á vorin. Þá færði hann ömmu og mömmu Indíanamokkasínur, útsaumaðar með perlum.
Síðla árs 1923 fluttum við í hvítt, stórt hús sem pabbi byggði við Lipton Street í Winnipeg. Ég eignaðist lítinn bróður þann 12. febrúar 1925 og var hann skírður Gunnlaugur Hans. Húsið var í hverfi sem mikið af Íslendingum bjó í. Göturnar í Winnipeg eru mjög reglulegar. Þær sem liggja frá austri til vesturs heita Street, og þær sem liggja frá norðri til suðurs heita Avenue. Kannski var það öfugt?
Nokkrum árum seinna seldi pabbi húsið við Home Street og keypti eldra hús handa fjölskyldunni við Simcoe Street. Við bjuggum í því húsi til 1930. Áður en við fluttum þangað inn leigðu foreldrar mínir í nokkra mánuði í húsi þar sem nokkuð var um músagang. Eitt kvöldið heyrði ég mikil læti og hafði þá pabbi fundið mús í svefnherberginu sínu. Ég kom að honum þar sem hann stóð í náttserknum uppá stól með kúst á lofti, og var það kostuleg sjón sem ég hef hlegið oft að seinna. Pabbi var annars karlmenni og óhræddur og veit ég ekki af hverju hann brást svona við í þetta skipti.
Nú er mamma kominn á skrið og og auðséð að minningarnar hleypa í hana krafti. Ég hjálpa henni framúr og hún sest inn í stofu með tebolla. Nú streymir allt fram eins og það hafi gerst í gær.
Ömmu þína langaði að flytja aftur heim til Íslands. Hana langaði sérstaklega til að fara á Alþingishátíð, sem halda átti á Þingvöllum um sumarið 1930. Hópur Íslendinga hafði ákveðið að fara þangað og átti að halda saman. En pabbi þrjóskaðist við - honum gekk ágætlega með smíðarnar og var nokkuð ánægður með lífið í Winnipeg. Þá setti kreppan mikla 1929-30 strik í reikninginn. Minna varð um framkvæmdir, og minni eftirspurn eftir húsasmiðum. Pabbi byggði samt hús sem hann hafði hugsað sér að selja, og hét mömmu því að ef honum tækist að selja það á góðu verði, færu þau öll til Íslands á Alþingishátíðina. Og það tókst.
Þeir Íslendingar í Winnipeg sem ætluðu á Alþingishátíðina tóku á leigu skip, og átti að halda hópinn alla leið fram og til baka. En nú var pabbi farinn að hugsa um möguleikann á því að flytja aftur til Íslands og gera mömmu til hæfis. Þess vegna seldu þau húsið sitt við Simcoe Street. Þau seldu líka húsgögnin og pökkuðu lausamunum, búsáhöldum, leirtaui og öðru fjölskyldugóssi í stórar járnkistur sem þau tóku með til Íslands. Síðustu nóttina í Winnipeg kviknaði í kassaverksmiðju í útjaðri bæjarins og fékk fjölskyldan – ásamt hinum Íslendingunum – lítinn svefnfrið þá nótt.
Ég var nýorðin ellefu ára þennan sumarmorgun sem við lögðum af stað með lestinni frá Winnipeg og Gunnlaugur bróðir var fimm ára. Í lestinni voru allir fullir tilhlökkunar að sjá fósturjörðina aftur. Íslensku konurnar voru búnar að gleyma veðurfarinu á Íslandi og höfðu meðferðis töskur með sumarkjólum og blómahöttum til að státa sínu besta á Alþingishátíðinni.
Lestarferðin tók á annan sólarhring. Í Quebec beið skipið eftir Íslendingunum, sem komu sér fyrir í káetum og kojum. Skapið var létt hjá mannskapnum. Siglt var niður eftir St. Lawrence ánni til sjávar, og síðan var stefnan tekin á Ísland. Ég man hvað ég var kvíðinn þegar við nálguðumst Quebec brúnna. Ég var sannfærð um að mastrið á skipinu mundi rekast upp undir brúnna. Auðvitað sigldum við undir brúnna slysalaust. Um borð í skipinu var ung stúlka, sem klæddist stuttum kjól, en þeir voru þá nýkomnir í tísku. Hún var líka í silkisokkum og háhælaskóm, og vakti mikla athygli meðal hinna, þá sérstaklega fyrir þann hæfileika sinn að spá í bolla. Fólkið sat um hana og beið eftir að heyra hvað framtíðin bæri í skauti sér. Ég sá stúlkuna aldrei einsamla, og alltaf var hún jafn kát og fjörug og vinsamleg við skipsfélaga sína.
Siglingin til Íslands tók 9 daga. Fjölskyldan bjó fyrst um sinn í Hólabrekku á Grímstaðaholti, þar sem Ögmundur Stephensen, bróðir pabba, bjó ásamt konu sinni, Ingibjörgu og börnum, en eitt þeirra var Þorsteinn Ö. Stephensen, síðar leikari. Stefán afi þinn smíðaði Hólabrekku árið 1910 fyrir Ögmund.
Við fórum á Alþingishátíðina og tjölduðum vestan við Almannagjá, þar sem bílastæðin voru á hátíðinni 1974. Í hópnum voru: Pabbi, mamma, Gunnlaugur bróðir, Ögmundur, Ingibjörg og börn þeirra. Eftir hátíðahöldin héldum við öll saman í tjöldin, og strákarnir skemmtu með draugasögum fram á nótt.
Haustið 1930 leigði fjölskyldan tvö herbergi að Laugavegi 27b af foreldrum Sr. Þóris Stephensen. Við bjuggum þar um veturinn. Ég gekk í Austurbæjarskólann, en þetta var fyrsta árið sem hann starfaði. Ég var í tilraunabekk-æfingabekk Kennaraskólans. Pabbi var ekki hrifinn af lífinu á Íslandi og mamma varð fyrir vonbrigðum með fósturlandið. Meirihluti fína borðbúnaðarins, sem hún hafði pakkað svo vandlega í járnkistuna, hafði brotnað í sjóferðinni. Í Kanada hafði hún vanist tækjanotkun, og átti m.a. þvottavél með vindu, sem gekk fyrir rafmagni. Pabbi hafði smíðað fyrir hana bekk við þvottavélina, þannig að þvotturinn var leikur einn. Á Íslandi þurfti mamma hins vegar aftur að hverfa til þvottabretta. Baðkar fylgdi heldur ekki íbúðinni sem við bjuggum í. Annað angraði þau og sérstaklega fannst pabba Íslendingar vera langt á eftir í öllu, og kotbúskapur þeirra ekki freistandi. Því var ákveðið að snúa aftur „heim“. Ég saknaði líka ýmislegs eins og hjólaskauta en þótti annars gaman á Íslandi. Fannst reyndar margt ansi lítið þegar ég kom fyrst til Íslands.
Því fór svo að haustið 1931 vorum við komin aftur til Kanada. Þar sem húsið og húsbúnaður hafði verið selt fyrir Íslandsferðina, áttum við í ekkert hús að venda. Því varð að taka húsnæði á leigu. Fyrst leigðum við í Home Street hjá Kris Thorsteinssyni og frú sem bjuggu þar ásamt þremur sonum sínum. Hún vann hjá útvarpsstöð í Winnipeg, og var því nokkuð nútímaleg kona á þess tíma mælikvarða. Þau áttu píanó og leyfðu mér oft að spila á það.
Seinna fluttum við í leiguhúsnæði hjá Sigga Þorsteinssyni og konu hans, Dóru, og þremur sonum. Á þessum árum gekk ég í „sixth grade, seventh grade“, „eighth grade“ og “ninth grade” . Mér gekk vel í skóla. Þau sem voru í 5 efstu sætunum í bekknum fengu að sitja fremst. Flestir krakkarnir voru af íslenskum ættum. Guðrún Biering var alltaf efst í bekknum og við Fred Steffensson skiptumst ætíð á að vera í 4. og 5. sæti.
Síðar fluttum við á neðri hæðina hjá Sigga Vilhjálmssyni. Siggi var einhleypur og hafði vinnu en hann skrifaði meðal annars greinar í Heimskringlu og Lögberg. Hann var róttækur og skrifaði gjarnan um ýmis þjóðþrifamál. Siggi átti gamla ritvél sem hann eyddi mestöllum tíma sínum við. Ég lærði á vélina og vélritaði til dæmis fyrir Sigga eina grein sem hann sendi í blað. Siggi sparaði hvern aur og var lítt hrifinn af því að eyða peningum í mat. Einn daginn kom ég að honum þar sem hann var með fulla pönnu af mat sem hann var að steikja. Ég spurði: „Ertu að steikja kartöflur?“ Hann svaraði: „Þetta er nú laukur, vinan. Laukur er hollur, bragðgóður og ódýr matur. Hann er fínn fyrir heilsuna og kemur í veg fyrir að tennurnar verði mjúkar.“ Aldrei hafði ég vitað til þess að ein máltíð gæti samanstaðið af lauk og engu öðru!
Kreppuárin voru ýmsum erfið. Ekki var mikla vinnu að fá og þurfti pabbi stundum að sækja vinnu langan veg. Foreldrar mínir voru því aftur farnir að hugsa um að flytja til Íslands og um nokkurn tíma hafði verið ákveðið að það yrði haustið ’34. Ég hlakkaði mikið til að byrja í „Dan Mac“ skólanum, og varð fyrir vonbrigðum þegar mér var sagt að það tæki því ekki að fara í skóla, út af fyrirhugaðri ferð. Því varð ég að sitja heima og bíða í mánuð á meðan félagarnir fengu að ganga í skóla.
-Langaði þig aftur til Íslands?
-Nei, reyndar ekki. Ekkert sérstaklega. Fjölskyldan kom öll til Íslands skömmu fyrir jól 1934. Pabbi innréttaði kjallarann í Hólabrekku og bjuggum við þar í 2-3 ár. Árið 1938 fluttum við að Garðastræti 11a, öðru nafni nefnt Hákot við Fischersund. Pabbi og þrjú systkini hans höðu fengið húsið í arf eftir Högna bróður sinn og bjuggum við þar til ársins 1941 er pabbi dó, 68 ára að aldri.
Ég sé, að nú er mamma farin að þreytast, enda búin að koma víða við á umrótatímum fyrir 60 til 70 árum. Ég hjálpa henni aftur uppí rúm og hún leggur sig smástund. Ég kem nokkru síðar að rúmi hennar og geri mig líklegan til að kveðja. Sé samt að hún er enn á valdi minninganna og leyfi henni að halda áfram. Bið hana samt að gefa mér stutt yfirlit í tímaröð áður en dýpra er haldið.
Já Stebbi minn, þennan vetur sem við komum heim byrjaði ég nám í Kennaraskólanum sem óreglulegur nemandi. Inngöngualdur var 18 ára en ég varð 16 vorið sem ég fór í prófin. Mér var sagt að ég fengi að halda áfram námi í skólanum ef ég fengi 1. einkunn. Það tókst.
Sumarið 1935 er ég var 16 ára vann ég í Grænuborg. Ég vann í eldhúsinu aðra hvora viku en passaði börnin hina vikuna. Um haustið gerðist ég reglulegur nemandi í Kennaraskólanum. Það haust komu tveir eða þrír nýir nemendur í skólann frá Reykholti og settust í 2. bekk með mér. Pabbi þinn var einn þeirra. Mér fannst gaman að Páli því hann hermdi eftir kennurunum, sérstaklega Séra Sigurði Einarssyni. Sigurður komst að þessu og lagði um tíma fæð á Pál. Það lagaðist þó seinna.
Sumarið 1936 vann ég aftur í Grænuborg. Ég man að Pabbi þinn var í vegavinnu á Holtavörðuheiði þetta sumar. Ástarsamband okkar var þó ekki hafið á þessum tíma. Næsta vetur var ég í þriðja bekk Kennaraskólans og tók kennarapróf vorið 1937, þá nýorðin 18 ára. Um sumarið starfaði ég sem kennari í Grænuborg en var ráðin forstöðukona í Vesturborg um haustið. Vesturborg var þá leikskóli opinn að vetrarlagi. Ég tók nemendur í aukatíma í ensku og fékk 75 aura á tímann. Pabbi þinn kenndi þennan vetur á Seltjarnarnesi. Næstu tvö árin var ég forstöðukona í Vesturborg á veturna, en kennari í Grænuborg á sumrin.
Veturinn 1939 til 1940 las ég tvítug undir stúdentspróf utanskóla og kenndi ensku í einkatímum. Veturinn áður hafði ég tekið part af stúdentsprófum og tók vorið 1940 stúdentspróf með 6. bekkingum ásamt pabba þínum, sem var þá kennari í Viðey og las einnig utanskóla undir stúdentspróf. Prófin fóru fram í Alþingishúsinu því breska setuliðið hafði lagt undir sig Menntaskólann.
Mamma mín. Þetta var fínt yfirlit. Nú er komið haustið 1940. Var það ekki þá sem þú fórst til Bandaríkjanna?
Jú Stebbi minn. Mig langaði að mennta mig meira í forskólakennslu og hélt til New York með gamla Gullfossi um haustið. Velgjörðarmaður minn Steingrímur Arason og Sína kona hans voru þá í New York og tóku á móti mér. Hann ætlaði að koma mér í Teachers College Columbia University en þaðan var hann með gráðu. Umsóknin hafði þó komið of seint og fór ég því fyrsta veturinn í Georgia State Womens College. Fyrir góð meðmæli frá Steingrími Arasyni og Freysteini Gunnarssyni, skólastjóra fékk ég styrk frá menntamálaráðuneytinu fyrir fargjaldinu vestur.
Vorið 1941 fór ég beint frá Georgia til Evanston í útjaðri Chicago. Þar var ég í sex vikur við nám í National College of Education og vann mér inn nokkra punkta. Þaðan fór ég beint til New Jersey og vann sem leiðbeinandi í sumarbúðum YWCA (KFUK). Næsta vetur var ég svo í Teachers College Columbia og sumarið 1942 vann ég í sumarbúðum Westchester County við Hudson ána. Ég minnist þess að Westchester var í nágrenni við Sing Sing fangelsið og fór ég út á sömu járnbrautarstöð og þeir sem áttu erindi í fangelsið.
Nú fara Bandaríkin í stríð á þessum árum. Manstu eftir einhverju sérstöku í því sambandi?
Já. Eftir árásina á Pearl Harbour í desember 1941 voru nemendur boðaðir um hádegi til að hlusta á útvarpsræðu Franklin Delano Rosevelt. Stúdentarnir voru frá 40 löndum, en japönsku stúdentarnir mættu ekki. Líklega hafa þeir verið teknir fastir um leið. Ég man að Japanir í Kaliforníu voru settir í heilan bæ og voru þar öll stríðsárin. Japanir sem voru bandarískir þegnar frá fæðingu voru þarna líka. Þá var myrkvunin í New York mjög eftirminnileg. Breiða þurfti fyrir glugga á kvöldin því ekki mátti sjást ljós á strandlengju Bandaríkjanna. Ég var einskonar loftvarnavörður í heimavistinni og varð að fylgjast með því, ásamt fleirum, að fyrir myrkur væri dregið væri fyrir alla glugga. Verið var að kalla strákana í herinn og minnist ég þess að um sumarið, er ég bjó hjá Steingrími og Sínu, hafði piltur boðið mér í bíó og ætlaði að sækja mig klukkan sex. Klukkan fimm var bankað og fór ég til dyra með rúllur í hárinu. Þar var þá pilturinn komin með blómvönd í fanginu og tilkynnti mér að hann yrði að afboða bíóferðina því hann hefði verið kvaddur í herinn og ætti að mæta morguninn eftir. Ég vil þó nefna að það var ekkert á milli mín og þessa stráks. Hann skrifaði mér þó seinna.
Þar sem pabbi hafði dáið sumarið 1941 (7. júlí) og mamma átti í erfiðleikum ákvað ég því um sumarið 1942 að fara heim og aðstoða hana og Gunnlaug bróður. Erfitt var með ferðir á þessum tíma en ég man að einhver skip voru skotin niður í skipalestinni sem ég var í. Haustið 1942 kom ég svo heim til Íslands. Þá voru erfiðleikar með að fá húsnæði. Mamma bjó með Gunnlaug í þröngu húsnæði hjá Þórunni mágkonu sinni. Ég bjó því hjá Jónu Kristínu vinkonu minni í 2 mánuði. Mamma fékk þá húsnæði á Þórsgötu og svaf ég í stofunni hjá henni.
Ég kom það seint heim til Íslands að búið var að ráða í leikskóla og engin kennarastörf að fá. Ég las þá auglýsingar og réði mig í vinnu hjá Bandaríkjaher á skrifstofu á Laugavegi. Skrifstofan var líklega þar sem Mál og menning er núna. Ég þýddi og túlkaði, en aðallega var um að ræða samninga við bændur og jarðeigendur. Við ráðninguna tók ég fram að ég vildi ekki fara með hermönnunum á vettvang í jeppunum. Það kom í hlut annarra. Hermennirnir voru almennilegir í framkomu, en allir sem komu á skrifstofuna spurðu um íslensku stúlkuna og pískruðu. Ég sagðist vera trúlofuð og fékk þá að vera í friði. Mér er það minnistætt að af og til voru loftvarnaæfingar. Ég hafði þá um tvennt að velja. Annaðhvort að fara niður í kjallara eða taka gasgrímu úr skrifborðsskúffu og hengja hana um hálsinn. Ég valdi seinni kostinn og hélt áfram vinnu með grímuna um hálsinn. Þetta var skrítin tilfinnig.
Er pabbi kominn inn í myndina á þessum tíma?
Já, við pabbi þinn höfðum verið í lauslegu sambandi áður en ég fór út og skrifuðumst við á meðan ég var úti. Við drógumst hvort að öðru er ég kom heim og sagði hann mér strax frá því að stúlka í Keflavík væri ófrísk af hans völdum, en hann ætlaði sér ekki neitt með hana. Faðir hennar og bróðir hefðu gert sér ferð á hans fund, þar sem hann bjó á Garði, til þess að fá á hreint með hug hans til stúlkunnar. Hann hafði sagt þeim sem var. Samband okkar Páls byrjaði að þróast. Ég man eftir að Páll bauð mér á stúdentaball 1. desember 1942. Við dönsuðum mikið og skemmtum okkur vel. Í lok ballsins voru dregnir út vinningar og vann ég kampavínsflösku. Ég drakk eitthvað úr flöskunni og var hálf skrítin í vinnunni morguninn eftir. Könunum var skemmt og gerðu grín að þessu.
Í byrjun árs 1943 kom Jóhannes formaður Barnaverndarnefndar að máli við mig og bað mig að vinna í einn mánuð að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði í forföllum gæslukonu. Á Kleppjárnsreykjum var þá rekið dvalarheimili fyrir afvegaleiddar stúlkur á aldrinum 14-16 ára. Ég sló til og fór þangað. Forstöðukonan var indæl, en það var strok í stelpunum.
Þú sagðir mér einhvern tímann frá uppákomu með hermenn sem voru í nágrenninu. Hvað átti sér stað?
Það var hermannakampur í Hvítársíðunni og óku hermennirnir framhjá Kleppjárnsreykjum. Eitt sinn kipptu þeir tveimur stelpum uppí jeppa sinn og hurfu á braut. Ekkert farartæki var þá á Kleppjárnsreykjum og lagði ég því land undir fót ásamt smiði er var á staðnum og gengum við í kampinn, en það var alllöng leið. Þegar þangað kom voru stúlkurnar farnar og enginn yfirmaður við. Ég man að undirmenn sem við ræddum við undruðust enskumælgi mína. Ég og smiðurinn urðum að ganga til baka aftur, en er heim var komið höfðu stelpurnar skilað sér.
Næsta dag kom borðalagður foringi ásamt íslenskum lögreglumanni að Kleppjárnsreykjum. Foringinn baðst afsökunnar á framferði hermannanna en það fór fyrir honum eins og undirsátunum daginn áður, að hann var dolfallinn yfir því að hitta fullkomlega enskumælandi stúlku í þessu umhverfi.
Er eins mánaðar ráðningartíminn var liðinn fór ég aftur til Reykjavíkur. Stelpunum á heimilinu líkaði það ekki og gripu þær til sinna ráða. Nokkrar struku og sögðust ekki koma aftur fyrr en ég væri komin til starfa á ný. Það varð úr að ég hélt aftur uppí Borgarfjörð í sveitasæluna og vann þar til vors.
Í sumarbyrjun 1943 réði ég mig til starfa sem forstöðukona í Suðurborg við Eiríksgötu sem var í sama húsi og fæðingarheimilið var lengi í. Ég hafði herbergi á staðnum og vann þarna í eitt ár. Samband okkar Páls varð æ nánara og kom hann oft í heimsókn til mín. Við ákváðum að trúlofa okkur, en ekki stóð til að setja upp hringa. Við ákváðum þó að það væri skynsamlegt með tilliti til heimsókna Páls. Við settum upp trúlofunarhringa á Sumardaginn fyrsta 1944 og var slegið upp partíi í kaffistofunni í Suðurborg. Gestirnir voru allsundurleitur hópur. Starfsstúlkur úr Suðurborg, Skúli Thoroddsen og fleiri vinir Páls úr Háskólanum , Jóna Kristín og nokkur systkini Páls þau Óli, Sigrún og Jón, ef ég man rétt. Á þessum árum var til siðs við slík tækifæri að syngja við gítarundirleik og var það gert þarna. Ég minnist þriggja lokaðra munna á fyrrnefndum systkinum er söngurinn ómaði.
Á þessum árum var deilt var um uppeldis- og kennslumál. Steingrímur Arason var menntaður í Ameríku en Ísak Jónsson í Svíþjóð. Stefnur þeirra rákust á og komst Ísak langt á frekjunni. Ísak beitti sér fyrir því að kona var ráðinn í Suðurborg án samráðs við mig sem var þá forstöðukona. Mér mislíkaði þetta og sagði upp starfinu vorið 1944.
Sumarið 1944 rak Rauði Krossinn sumardvalarheimili fyrir börn úti á landi í því skyni að forða þeim frá yfirvofandi loftárásum í Reykjavík. Eitt heimilanna var í Menntaskólaselinu og réði ég mig þangað sem forstöðukona. Þar dvöldu um 40 börn. Ég man að þetta sumar var einskaklega hlýtt og veður fallegt.
Haustið 1944 var Lúðvík Guðmundssyni skólastjóra myndíða- og handlistaskólans falið að endurreisa upplýsingaskrifstofu stúdenta. Ég aðstoðaði hann við þetta fram að áramótum. Er Lúðvík bað mig að koma eftir áramót sagði ég við hann: “Ég er nú ekki viss um að það passi”. “Nú af hverju ekki?” spurði Lúðvík. “Hefurðu ekki tekið eftir því að ég er barnshafandi og er að fá bumbu?” svaraði ég. “Ja, ég hef bara ekkert tekið eftir því” sagði hann þá. Bumban reyndist mjög sýnileg eftir áramót og lauk þá vinnu minni þar.
Voruð þið pabbi farin að búa saman á þessum tíma?
Nei. Það var óttalegt húsnæðisbasl á öllum og erfitt að fá húsnæði. Pabbi þinn bjó á Garði en ég bjó hjá mömmu á Bræðraborgarstíg 34 í kristilegu andrúmslofti því í húsinu var rekið heimatrúboð. Við Páll giftum okkur 16. apríl 1945 en fengum ekki húsnæði strax. Ég bjó hjá mömmu þegar þú fæddist þann þann 3. júlí, en þá fengum við Páll herbergi og eldhús í næsta húsi, en bara til eins mánaðar. Reyndar var Páll önnum kafinn þennan vetur því hann var í próflestri og útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskólanum um vorið. Það varð síðan úr að Páll réði sig sem Garðprófast og fengum við um sumarið tveggja herbergja íbúð á fyrstu hæð á nýja Garði með aukaeldhúsi í kjallara. Rikki föðurbróðir þinn, sem þá var þrettán ára, fékk að sofa í þessu eldhúsi. Ég var því til að byrja með með þig á brjósti og Rikka í fæði. Að öðru leyti fékk hann þjónustu hjá Sigrúnu systur sinni.
Stebbi minn. Þú manst kannski eftir forfeðravísunni sem hann pabbi þinn orti þegar þú varst skírður.
Já vísuna kann ég:
Nú er komið nafnið manns,
nú skal rakinn ættstafur.
Stefán, Guðrún, Stefán, Hans,
Stefán, Stefán, Ólafur.
Vísan nær fram til Ólafs Stephensen stiftamtmanns er bjó Viðey frá 1793 til æviloka, árið 1812. Þau sem nefnd eru í vísunni eru: Stefán Pálsson f. 3.07.1945, Guðrún Stephensen f. 11.05.1919, Stefán Hansson Stephensen f. 25.11.1872 trésmiður í Rvk og í Winnipeg, Hans Stefánsson Stephensen f. 21.11.1843 bóndi á Hurðarbaki í Kjós, Stefán Stefánsson Stephensen f. 13.09.1802 prestur á Reynivöllum í Kjós, Stefán Ólafsson Stephensen f. 27.12.1767 amtmaður í Vestur-amtinu og Ólafur Stefánsson (Stephensen)f. 3.05.1731stiftamtmaður í Viðey.
Nú er orðið áliðið kvölds og kveð ég því mömmu og þakka skemmtilega frásögn. Ég hef orðið margs vísari um uppruna minn og er ákveðinn í að ræða seinna við mömmu um búskaparár hennar með pabba.
Minningarbrot úr Vesturbænum.
Grein eftir Stefán Pálsson í Vesturbæjarblaðinu í júlí, 2007
Þórunn Pálsdóttir frá Sauðanesi segir Þórunni dóttur Páls S. og Guðrúnar sögur frá dvöl sinni á Kvisthaga 19
Sunnudaginn 15. okt. 2006 fer Þórunn Pálsdóttir yngri í heimsókn til ÞP eldri og biður hana um að rifja upp samskipti sín við börn Páls S. og Guðrúnar St. þegar hún bjó á Kvisthaga 19.
Já, sko ég bjó hjá þeim ´46 og ´47 á Nýja stúdentagarðinum. Þetta var stuttu eftir að þau giftust og Stebbi var þá á fyrsta árinu. Þau höfðu ekki efni á að fá sér íbúð og hann náttúrulega vann fyrir íbúðinni með þessu. Þetta var tveggja herbergja íbúð og þriðja herbergið sem ég svaf í það var úti á gangi en það átti að vera skrifstofa fyrir hann. Hann þurfti þess náttúrulega ekki því hann skrifaði allt bara á sinni skrifstofu sem hann þurfti að skrifa. Þar kynntist ég Stebba. Ég var í skólanum. Nú, svo fékk hún (Guðrún) stelpu til að vera þarna til að passa hann seinna. Hún var nú ekki heppin með hana. Stebbi var óskaplega rólegur og skemmtilegur krakki.
Þetta var nú alveg eins og vitlausaraspítali þarna eftir helgarnar, Allir drukku, ég meina ekki prófasturinn, heldur strákarnir. Þetta voru ýmsir þekktir menn í þjóðfélaginu sem eru komnir yfir sinn vinnualdur fyrir löngu. Þeir vor með heilu flöskurnar.
Einu sinni þegar ég kem fram þá situr Stebbi út á miðjum gangi. Þetta var stór gangur . Ég held að hann hafi verið rétt farinn að ganga. Ég veit ekki hvar hann náði í allar þessar flöskur, hann bara skreið með þær. Hann var búinn að skríða með allar flöskurnar og raða þeim allt í kringum sig, sat svo í miðjunni og ætlaði að fara að opna þær, en þær voru náttúrulegar allar tómar og var farinn að munda sig svona, ja, en skildi það ekki að það var tappi í þeim sumum. Ég greip hann nú og fór í burtu með allar þessar flöskur. Hann samþykkti ævinlega allt, en svo var hann afskaplega duglegur að brjóta. Hann fékk hvert glasið og könnuna á fætur annarri, henti því öllu. Reglusemin var svo mikil hjá honum að hann setti allt ruslið í ruslafötuna, en alltaf jafn prúður.
Svo kom plastöldin og mamma þín kom alsæl með plastkönnu handa Stefáni, hann sýpur á og hendir henni svo í gólfið. Hann henti könnunni í ruslafötuna og upp úr því steinhætti hann þessu. Hann var raunverulega hlýðinn.
Ég var í skólanum sem var til húsa í Háskólakjallaranum svo næsta vetur var ég hjá Jóni. Ég hafði ekki efni á því að borga húsaleigu og þá var það suður í Skerjafirði, en auðvitað kom ég oft til foreldra þinna og svoleiðis.
Við giftum okkur ´52. Seinna var ég vetrartíma hjá þeim. Ég fékk nefnilega leigt íbúðina uppi . Það var lítið herbergi til hliðar sem ég fékk og Hannes var að vinna í Þorlákshöfn. Það hefur líklega verið árið eftir, ég man ekki alveg hvernig þetta var.
Það var farið að fjölga hjá þeim, þið vitið sjálf hverjir voru fædd þá, það var liðinn svolítill tími á milli. Íbúðin var í leigu Það var skipstjórafrú sem leigði hana, Hún var að byggja þarna í hverfinu. Hún sá um alla bygginguna sjálf. Svo dróst byggingin og ég fékk ekki íbúðina fyrr en seinni partinn.(?)
Guðrún var þá vinnukonulaus. Ég var þarna vinnukona, en krakkarnir máttu eiga það að þau voru afskaplega góð við allar vinnukonur. Það var ekki til í því að þau væru að óhlýðnast þeim eða gera lítið úr þeim. Þá var nú Stebbi orðinn stórt prúðmenni. Arnór var svo óskaplega þægur. Ég man aldrei eftir að hann gerði neitt af sér fyrr en þegar hann var unglingur. Þá frétti ég út í einhverri sjoppu að þeir hefðu verið eitthvað með honum Vilmundi Gylfasyni. Óþekktarstrákarnir voru að hrekkja konuna og konan sagði: “Hvað er þetta, hvernig má þetta vera og þessi prúði piltur er frændi hennar Þórunnar (hún hlær). “Hvað gerði Arnór af sér”, (spurði ég.ÞP yngr) Hann gerði svo sem ekkert af sér nema að vera með Vilmundi. Þetta er eina óþekktarsagan sem ég hef heyrt af honum.
Sesselja var afskaplega ábyrgðarfull og dugleg. Mér fannst oft of mikið lagt á hana að láta hana vakna sjálfa í skólann. Þau vildu ekki heyra annað en að hún vaknaði sjálf við vekjaraklukku ellefu ára gömul. Hún hafði harðari skap en strákarnir og þetta gekk allt saman ágætlega.
Nú, Signý var náttúrulega eins og bara eins og hver önnur dúkka sem alltaf var að búa til brandara fyrir alla. Hún var alltaf að passa að ég eyddi ekki miklum peningum. Það var þá sá siður að það var alltaf verið að bjóða kristin blöð. Það voru alls konar trúarflokkar og frekjugangurinn var svo mikill í þeim. Konurnar voru heima og þær hættu ekki fyrr en þær gátu selt þeim blöðin. Svo kemur ein og hún er búin að selja mömmu þinni náttúrulega blað því hún var svo góð við þær allar. Þá sagði hún: Er ekki íbúð uppi? Jú, segir Signý, Þórunn stóra á heima þar. Hún á ekki að kaupa neitt svona. Hún les hjá okkur allt sem hún þarf að lesa”. Þetta fannst mér gott.(Þórunn eldri hlær) Engin hefur passað peningana síðan eins og hún.
Hún grét mikið stundum ef hún meiddi sig. Einhvern tíma sagði ég við hana: Signý mín af hverju ertu að gráta? “Af því ég meiddi mig” “Nú, og hvernig læknar þú það?” “Mamma er búin að gefa mér gott”. Svo fór ég (Þórunn eldri) til tannlæknis, það þurfti að rifa úr mér tennurnar. Ég var ógurlega veik. Þá segir hún: Ég skal fara til mömmu og biðja hana um að gefa þér sælgæti” Og það var nú aldeilis það sem ég þurfti.
Það vita nú allir að hún las upp í útvarpi og gerði það ljómandi vel. X og Z eru hjón og allt það. Hún las upp úr gagn og gaman. Hún gerði þetta svo óskaplega vel. Hún tók ekkert eftir því hvort einhver væri að heyra eitthvað. Hún lærði svo óskaplega fljótt að lesa. Hún hefur haft svo góðan framburð, alla tíð. Rikki var þarna, leigði þarna eftir að ég hætti að vinna. Hann var bara uppi. Hann var að vinna á Keflavík. Hann kom einhvern tíma með Kana, hermann. hann fór að tala við Signýju og segir, jæja Signý. Strákurinn spyr hana hvort hún skilji yes. Þá segir Signý yes og o.k. líka, síðan hefur Signý alltaf kunnað yes og o.k.
Hún fékk nú ýmislegt fram yfir finnst mér fyrir öll sín gæði en ástæðan fyrir því að hún las upp í útvarpi var að Baldur Pálmasson vinur Páls hann var með barnatímann í útvarpinu og hann fékk hana til að lesa upp.
Nú það voru oft veislur þarna og þá var nú þessi ósiður að fólkinu voru boðnar sígarettur bara eins og væri matur og þá voru þær að keppast um þetta hún (Þórunn yngri)) og Signý að bjóða en Signý var alltaf búin að pota sér á undan með sígaretturnar og þá fékk hin ekki að bjóða nema það var frænka sem var kölluð Ása frænka og reykti mikið. Hún tróð bara sígarettunum í töskuna sína, hún bjargaði málunum. Hún sagði “komdu hérna Tóta mín og ég skal þiggja hjá þér fjórar sígarettur”.Svo stakk hún sígarettum í veskið og hin var hin ánægðasta. Það var litla Þórunn, en ég er jafn stór og ég var þá og hef aldrei verið stór nema í den, þennan eina vetur.
Þórunn Pálsdóttir yngri ritaði eftir Þórunni Pálsdóttur eldri
Uppkast að bréfi Guðrúnar Stephensen til Gunnlaugs bróður hennar skrifað í New York 25. mars 1942
Miðvikudaginn 25. mars 1942 kl. 5:15
Í eldhúsinu í Johnson Hall.(Columbia University, New York, Guðrún var nemandi í Teachers College, hluti af Columbia University.)
Ég er búin að afhenda piltunum dúkana og það heyrist skröltið í leirtauinu hjá þeim uppi. Jack R. hamast við að vélrita matarseðla hérna við hliðina á mér. Hann er frá Texas og gengur í cowboy stígvélum. Hann er í lagadeild og gleymir oft agalega stórum skruddum undir borðinu.
Gene er hár og laglegur piltur sem er mjög líkur Slim
Summerville þegar hann var yngri. Hann er ósköp iðinn við að skera grapefruit, í
stórri hvítri svuntu – hann ætlar sér að verða læknir (skurð?).
Eddie er Pólverji – ljóshærður og fyndinn – talar góða ensku og brúkar munn við alla. Hann á von á fyrsta krakkanum sínum bráðum og við Tom erum að gefa honum góð ráð af og til.
Tom er nefnilega miðaldra maður, yfirmatsveinninn hérna. Hann er Grikki og hefur kennt mér mörg orð á því máli. Við tölum mikið um stjórnmál, þegar lítið er að gera.
Svo bauna ég grískunni á Philip, sem er dökkur og laglegur piltur frá Cyprus. Hann er svo hrifinn að grískukunnáttu minni að hann vill láta mig eignast Grikkja (helst sig) og fara til miðjarðarhafslandanna að stríðinu loknu. Ég kann ekki góð ráð að þiggja.
Svo eru þrír litlir naggar (grískir líka) á fimmtugsaldri sem vinna við ýmis
þakkarminni störf. Einn er sköllóttur og breiðleitur alveg eins og hann hafi verið
laminn að ofan og gengið á þverveginn. Hinn er með svo gasalega langa handleggi, þeir dingla næstum því við gólfið. Þeir tala illa ensku en rausa alveg við mig á sínu máli ef ég segi “seg-ala” (hvernig gengur) og halda að ég skilji allt aumingja karlarnir.
Það gengur lyfta frá ,,the counter” þar sem maturinn er skammtaður hingað niður í kjallarann – you know a dumb waiter. Ég sit og hlusta eftir ,,pöntunum” frá strákunum uppi og segi kokkunum hvað vantar. ,,Svo gengur söngurinn “ Send the dummy donkey “.,,Hurry up with the ham!” o.s.frv. ,
Hey, where is the baker?”.
Svo kemur Miss Pendleton the dietician. Hún ræður matnum, smakkar á ýmsu og er alveg eins og mamma hans Gunnars Matthíasar. Ef hún sér að ég hef ekkert að gera þá skipar hún mér ýmislegt, sem tekur mann lengur að tala um en að framkvæma.
Annars hef ég ýmsa vörulista, sem ég færi inn á skrár.
Tom er að steikja ilmandi góð chops, ég held ég fari að borða. By the way somebody just told me this joke today: An American soldier who was going to Iceland said there were two things he wanted to do when he got there. 1) shoot a polarbear and 2 )kiss an Icelandic girl. He got there allright, but when he woke up in the hospital he wished he had kissed the bear and shot the girl.
Lots of love and be a good boy,
your loving sister
Saga um kanarífuglana í Steinnesi samið af Stefáni Pálssyni í orðastað Önnu Heiðu Pálsdóttur
KANARÍFUGLARNIR
Við áttum heima í Steinnesi, sem var stórt hús við sjóinn út í Skerjafirði. Það var mikið af fuglum á sjónum og svo átti mamma líka fugl. Það var gulur kanarífugl sem átti heima í búri í borðstofunni á annarri hæð hússins. Fuglinn hét Pési og fannst okkur krökkunum gaman að leika við hann. Mamma hafði fengið fuglinn hjá nunnunum á Landakoti og sagði Stebbi stóri bróðir að fuglinn væri kaþólskur. Ég var nú bara átta ára þegar þetta var og vissi satt best að segja ekki hvað það var að vera kaþólskur, en Stebbi var nú alltaf að segja einhverja brandara og allavega fannst fólki þetta fyndið. Ég hafði þó heyrt að Páfinn væri kaþólskur þótt ég sæi ekki hvað væri líkt með Pésa og Páfanum.
Stundum var Pésa hleypt út úr búrinu og flaug hann þá um stofurnar og settist hátt uppi á gardínustangirnar. Alltaf var passað að loka öllum gluggum áður en Pésa var hleypt út því mamma sagði að hann rataði ekki heim aftur, ef hann flygi út, og svo gæti hann líka dáið úr kulda. Kanarífuglar eiga heima í heitum löndum og geta víst ekki lifað úti í kuldanum á Íslandi.
Ívar litli bróðir minn er tveimur árum yngri en ég. Þegar Pésa var hleypt úr búrinu flaug hann um og settist stundum á öxlina á Ívari. Það fannst Ívari gaman og stundum gat hann tekið Pésa í lófann og strokið honum. Ívar var oft að tala við fuglinn, en kanarífuglar eru víst svo vitlausir að þeir skilja ekki mannamál. Ívar hafði heyrt að páfagaukar gætu talað og var hann oft að óska þess að mamma keypti páfagauk svo hann gæti talað við hann. Ég var líka búin að ákveða að eignast einhvern tímann páfagauk.
Einu sinni var Pésa hleypt út úr búrinu og var þá Ívar að leika við fuglinn. Ívari datt í hug að prófa hvernig Pésa fyndist að fara inní skáp eða ofaní skúffu, en líklega fannst Pésa það ekkert gaman því hann tísti bara og barðist um með litlu vængjunum sínum. Seinna um daginn þegar mamma ætlaði að setja Pésa inn í búrið sitt fann hún ekki fuglinn. Hún leitaði út um allt hús og tóku flestir í fjölskyldunni þátt í leitinni. Ég leitaði líka út um allt, en Pési fannst hvergi og héldu allir að fuglinn hefði flogið út og væri kannski dáinn. Pabbi var ekkert sérstaklega hrifinn af dýrahaldi í húsinu, en nú kom í ljós að hann saknaði Pésa. Pési litli söng nefnilega svo fallega á morgnana og fannst pabba leiðinlegt að heyra sönginn ekki lengur.
Næsta dag var mamma mjög döpur vegna þess að Pési var horfinn. Henni fannst samt undarlegt að öðru hvoru heyrði hún einhvert fuglatíst. Hún áttaði sig þó ekki á því hvaðan hljóðin komu en við leituðum ennþá betur í gardínunum og ofaná skápum. Ekki fundum við samt Pésa. Seinna um daginn var mamma að tala við Ívar um það, hvað það væri leiðinlegt að Pési væri týndur og litla greyið væri nú einhversstaðar úti í kuldanum, fengi ekkert að borða og rataði ekki heim. Þá hvíslaði Ívar allt í einu: “Ég veit hvar Pési er”. Mamma trúði honum varla, en við eltum Ívar niður í hol þar sem hann opnaði kommóðuskúffu og út flaug Pési. Allir urðu mjög kátir þegar Pési litli fannst og mamma ákvað að skamma Ívar ekkert í þetta skiptið. Hún þurfti nefnilega stundum að skamma hann þegar hann gerði prakkarastrik. Ívar hafði víst ekki ætlað að meiða Pésa heldur aðeins geyma hann í skúffuni smástund, þar til hann væri búinn að leika sér úti. Svo var Ívar bara alveg búinn að gleyma Pésa þegar hann kom inn aftur.
Einu sinni var Pési eitthvað skrítinn. Hann hoppaði um á einni löpp og alltaf á sömu löppinni. “Nú er Pési búinn að læra París” sagði Stebbi bróðir, en mamma sagði: “Ekki bulla svona, Stebbi minn. Pési er eitthvað meiddur”. Hún skoðaði Pésa og sá að hann var fótbrotinn. Mamma reyndi að hringja í dýralækni, en náði víst aldrei sambandi. Hún ákvað því að lækna Pésa sjálf og batt eldspýtu við brotnu löppina á honum. Ég fór næstum að gráta þegar ég sá Pésa litla hoppa um með eldspýtulöppina. Stebbi bróðir sagði þá við mömmu: “Viltu ekki smíða handa honum hækju líka”, en þá sá ég að mamma varð reið. Henni fannst þetta ekkert fyndið hjá Stebba.
Löppin á Pésa litla greri saman og var ég voða kát. Ég ákvað að ég ætlaði að verða dýralæknir þegar ég yrði stór og lækna öll litlu mállausu dýrin. Nokkru eftir fótbrotið fannst okkur að Pési væri farinn að syngja minna. Mamma sagði að hann væri kannski einmanna. Það væri ábyggilega leiðinlegt fyrir Pésa að hafa ekki annan fugl til þess að tala við og svo mundi hann kannski vilja eiga litla unga. Mamma fór því í fuglabúð og keypti litla kanaríkonu handa Pésa.
Nýi kanarífuglinn var fyrst í sínu búri, en seinna var hann settur inní búrið hjá Pésa. Við biðum öll voða spennt eftir því að sjá, hvort kanarífuglarnir færu nú ekki að búa til litla unga. Ég var oft að kíkja á þá til að sjá hvort þeir væru farnir að kyssast. Ég sá þá aldrei kyssast, heldur voru þeir alltaf að rífast. Mér fannst þetta þó í lagi í fyrstu því ég vissi að fullorðið fólk rífst oft og líka þótt þau séu gift. Fuglarnir rifust alltaf meira og meira og loks voru þeir farnir að bíta og reyta hvorn annan. Mamma sagði að þessir fuglar þyldu auðsjáanlega ekki hvor annan og setti hún því nýja fuglinn aftur í búrið sitt. Stebbi bróðir sagði: “Nú hefur uppeldið hjá nunnunum komið í ljós. Pési átti að verða munkur og vill hann því engar kerlingar í sínu búri”. Ég gat nú ekki skilið hvernig Pési hefði átt að vera munkur. Varla er hægt að búa til munkakufla á svona pínulitla fugla.
Nokkru eftir að nýi kanarífuglinn var kominn aftur í búrið sitt fór hann að syngja. Mér fannst gaman að heyra fuglinn syngja, en skildi ekkert í því af hverju pabbi og mamma fóru að skellihlæja í hvert sinn sem fuglinn söng. Ég spurði því mömmu hvað væri svona fyndið og af hverju þau væru að hlæja. Hún sagði þá: “ Anna mín, það er þannig hjá kanarífuglunum að það er bara karlfuglinn sem syngur”. Ég botnaði ekkert í þessu svari og sagði: “Er það ekki frekar sorglegt að konufuglinn geti ekki sungið?”. “Jú Anna mín, það er frekar dapurlegt, en við hlæjum ekki að því. Við erum að hlæja af því að við settum karlfugl inní búrið hjá Pésa litla. Konan í fuglabúðinni seldi mér karl í stað kerlingar og Pési hefur ekki viljað hafa karl í búrinu hjá sér”.
Ýmis minningarbrot frá börnum Guðrúnar og Páls
Sissú (Sigþrúður) sagði svo frá (um árið 2000)
Hóffý (vinkona Sigþrúðar) segir að tvennt standi alveg upp úr hjá sér hvað persónuleika mömmu varðar, og kom henni á óvart.
Hún og Curt (eiginmaður hennar) voru í heimsókn á Íslandi og sátu í gufubaðinu á Laugarvatni, þegar þau heyra kunnulega rödd tala ítölsku og inn kemur mamma (fararstjóri) með hóp af ítöskum körlum og útskýrir heitavatnsmálin á ítölsku.
Einhvern tíma var svo mamma í heimsókn í New York City og gisti hjá Hóffý og Curt. Hún sá að sjálfsögðu alveg um að hafa ofan af fyrir sér í borginni. Hún kemur upprifin af gleði heim eftir heimsókn í The Cloisters (að mig minnir) yfir að hún hafði fundið einhver gömul skjöl. Hóffý segir: „Ég var svo hissa og impressed að það væri hægt að gleðjast svona yfir gömlum skjölum.“
Sjálf man ég ég eftir að skammast mín heima fyrir hvað mamma var oft sein að fara af stað í vinnuna á Þjóðminjasafninu. En ég skammaðist mín ekkert eftir að hafa heimsótt hana á safnið og sjá hvað hún var lifandi. fræðandi og gefandi fyrir útlendingana.
Mamma var góður diplomat. Ég minnist hennar í París. Þegar mamma kom til Parísar 1976 til þess að aðstoða mig með að finna húsnæði þegar að ég var í acupunktúr-meðferðinni sem kom til vegna mömmu. (Hún skrifaði til Kína, Englands, Frakklands og víða. Keypti bækur á ferðum sínum til Englands m.a. um nálastungur). Mamma hafði ekki komið til Parísar eða Frakklands í tuttugu ár eða svo. Hún talaði frönskuna, keypti dagblöð, lá á gólfinu (á ljósmyndir af henni á gólfinu í stúdíó-íbúðinni í París).
Lengi lifi minningin um mömmu,
Sissú
_________________________________________________________________________
Signý sagð:
Það má með sanni segja að börnin hafi notið góðs af menntun mömmu sem naut þess að miðla henni áfram og koma öllum til þroska. Í því voru þau hjónin einkar samtaka, en þau höfðu kynnst í Kennaraskólanum á sínum tíma og bæði af þeirri kynslóð sem þurfti að hafa fyrir því að brjótast til mennta af litlum veraldlegum efnum.
Mamma var listelsk og fagurkeri. Hún var söngelsk og lék á gítar og orgel, tók aukalega söngkennarapróf frá Kennaraskólanum, hafði óvenju fagra rithönd, lagði stund á skrautletrun alveg þar til Parkisnsonsjúkdómurinn hamlaði henni, var drátthög og kenndi börnum sínum undirstöðuatriði í teikningu. Þá var hún bókhneigð og las sér til ánægju jafnt á erlendum tungum sem íslensku.
Saga Signýjar Pálsdóttur um jólin í æskunni
Jólin koma.
Jólin koma. Þessi tvö orð eru hlaðin merkingu frá barnæsku er hófst á miðri síðustu öld. Þvílík tilhlökkun og eftirvænting.
Ljósadýrðin á aðventunni rauf myrkrið og komu barninu sannarlega í hátíðarskap. Sérstaklega minnist ég að á framhlið elliheimilisins Grundar við Hringbraut var ritað stórum stöfum með ljósaperum Gleðileg jól. Og yfir gatnamótum Vesturgötu og Aðalstrætis hékk jólabjalla úr marglitum perum. Upplýsta norska jólatréð á Austurvelli var líka magnað eð ég tali nú ekki um þegar birtist glaðlegur jólasveinn í glugga Rammagerðarinnar sem kinkaði brosandi kolli til vegfarenda.
Margvísleg jólatónlistin í útvarpinu átti sinn þátt í stemmningunni og jólaboðskapurinn um kærleik, vináttu og komu frelsarans sveif yfir vötnum. Ég hef verið trúuð frá því ég man eftir mér og trúin var mér eiginlega meðfædd. Ekki hlaut ég neitt strangara trúaruppeldi en hver annar, en smám saman fór ég að trúa því að móðuramma mín, sem var mjög trúuð, fylgdi mér. Hún væri verndarengillinn minn eins og þeir sem maður sá á biblíumyndunum sem maður fékk í sunnudagaskólanum í Háskólakapellunni og hjá Hjálpræðishernum. Ég átti að heita í höfuðið á henni - Friðný Sigurborg – en þá kom í ljós að hún vildi alls ekki að ég þyrfti að burðast með þessa nafngift sem henni hafði alltaf leiðst. Þá spurði pabbi hana hvernig henni litist á að þau tækju Sig af Sigurborgu og ný af Friðnýju og létu mig bara heita Signýju. Það leist henni vel á, en ári eftir skírnina þurfti hún að hlaupa 67 ára gömul frá heimili okkar á Kvisthaga að Grund á Hringbraut til að ná í strætó til að passa ömmubarn í Austurbænum. Hún var ekki fyrr sest upp í vagninn en hún hneig niður og lést úr hjartaáfalli. Blessuð sé hennar minning. Svo ég náði aldrei að kynnast henni nema sem verndarengli.
Munið þið jólailminn? Nýir ávextir, bökunarilmur, greniangan, hátíðamatargerð... Á aðventunni kom kassi heim af eplum og annar af appelsínum. Ilmurinn úr köldu geymslunni var ómótstæðilegur. Svo var laufabrauðið skorið út og steikt að norðlenskum sið og ýmsar smákökur bakaðar að amerískum frekar en dönskum sið. Pabbi var að norðan og vildi rjúpur í jólamatinn en mamma var fædd og uppalin í Kanada og vildi helst kalkún. Svo jólasteikin var ýmist rjúpa eða kalkúnn. Nóg var af rjúpu en það þurfti að hafa fyrir því að ná í kalkúninn.
Ég minnist þess að einu sinnu fórum við krakkarnir á aðventunni með mömmu á Keflavíkurvöll í gegnum hliðið með varðmönnunum til að heimsækja ameríska vinkonu hennar þar. Þegar haldið var til baka var kalkúni og fleira góðgæti troðið undir úlpur okkar krakkanna í aftursætinu áður en við færum í gegnum hliðið aftur, því þá þurfti að smygla kalkúninum inn í íslenska landhelgi. Það voru svo mikil innflutningshöft þarna á skömmtunarárunum eftir stríð svo menn þurftu að bjarga sér.
Jólaskemmtunin í skólanum var tilhlökkunarefni og mikið æft fyrir jólaleikrit og kórinn og salur og stofur skreyttar. Á þessum tíma héldu frímúrarar líka þessi fínu jólaböll í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll sem við systkinin höfðum mjög gaman af. Ég man hvað allir sungu hástöfum þegar dansað var í kringum jólatréð lög eins og Adam átti syni sjö, Nú skal segja, Gekk ég yfir sjó og land og Bráðum koma blessuð jólin,... Ég taldi mig alltaf heppna að eiga sjö systkini því ég vorkenndi þeim sem ekki gátu dansað með fjölskyldunni í kringum jólatréð. Held ég hafi verið einna glöðust yfir þessum systkinahópi kringum jólin, þó ég hafi stundum látið mig dreyma um hvernig það væri að vera einkabarn.
En auðvitað voru það svo jólagjafirnar. Við systkinin skiptum okkur í hópa til að kaupa jólagjafir saman handa hvert öðru eftir óskalistum sem allir gerðu fyrir jólin. Við höfðum sparað saman af mánaðarlegum vasapeningum sem við fengum frá pabba og fór upphæðin bæði eftir aldri og hvernig við höfðum hagað okkur þann mánuðinn. Það var allt fært til bókar og við látin kvitta fyrir. Bókin er enn til.
Yfir öllu hvíldi mikil leynd. Jólagjafir komu bara frá pabba, mömmu og systkinunum, enda afar og ömmur löngu látin. Þó var ein undantekning. Mamma átti frænda í Kanada. Hann var strætóbílstjóri og vinsæll í Winnipeg fyrir einstæða glaðværð og góðmennsku. Gjöf frá honum varð eftirminnilegasta jólagjöfin mín. Þegar ég opnaði pakkann var þar undurfalleg brúða sem mér fannst vera eftirlíking af Elisabeth Taylor. Hún var ekki svona ofvaxið ungabarn eins og allar brúður þessa tíma, heldur glæsileg kona með alvöruhár og eyrnalokka sem hægt var að skipta út. Hún átti bæði samkvæmiskjól og ekta ballerínubúning með tjullpilsi. Og það sem meira var: Hún átti tvenna skó, aðra háhælaða og hina ballettskó með löngum silkiböndum sem ég reimaði upp um fagra fótleggina. Þetta var löngu fyrir tíma Barbie svo þið getið ímyndað ykkur hvers konar bylting þetta var þarna árið 1956. Það var nú meira hvað ég dáði þessa brúðu. En nú er ég búin að brjóta og týna (eins og segir í kvæðinu) öllum mínum barnaleikföngum.
Á jólagjafaóskalista okkar barnanna var alltaf sérdálkur fyrir bækur enda var bóklestur mér ástríða og besta skemmtun. Pabbi fór alltaf til Valdimars vinar síns í Iðunni á aðventunni og þar voru gerð stórinnkaup fyrir alla aldurshópa, en við vorum átta systkinin sem fæddust á 13 árum. Uppáhaldsbækurnar mínar í æsku voru bækur Enid Blyton. Þar var Ævintýrasirkusinn í algeru uppáhaldi. Ég held við höfum marglesið hana öll systkinin - að minnsta kosti var engin bók eins slitin og laus á kilinum eins og hún þegar bókasafn æskuheimilisins leystist upp.
Ýmsar hefðir fylgdu jólunum á þessu stóra heimili. Pabbi keypti stórt jólatré sem sett var inn í stofu og skreytt á Þorláksmessu. Elstu börnin fengu að hjálpa til við skreytinguna en fyrir yngri börnunum var stofan lokuð fram að jólum. Ég var fjórða elst svo það var viss upphefð þegar ég loks komst í hóp hinna innvígðu. Hin yngri máttu bíða. Eða eins og eldri bræður mínir sögðu við ýmis tilefni: ,,Það á að bera virðingu fyrir ellinni“.
Jólin komu klukkan sex þegar hljómar kirkjuklukknanna í útvarpinu hringdu jólin inn. Þá þustu allir hver að öðrum uppábúnir og buðu Gleðileg jól. Og þá var opnað inn í stofu. Þvílík dýrð að sjá uppljómað jólatréð með öllum pökkunum. Svo var hlustað á jólamessuna með jólaguðspjallinu á meðan lögð var lokahönd á matinn sem var yfirleitt tilbúinn um sjöleytið. Allir áttu að hjálpa til við að leggja á borð. Ég man að sparihnífapörin voru ekki öll jafngóð, svo þeir sem vildu eigna sér góð hnífapör sleiktu þau gjarnan í ásýnd hinna og settu við sitt sæti svo enginn annar tæki þau. Allir áttu merktan servíettuhring sem þeir settu á sinn disk. Þó maturinn væri óvenju ljúffengur og spenningurinn mikill kringum möndlugrautinn og möndlugjöfina var biðin eftir að opna jólapakkana afar löng. Enn lengdi það biðina að pabbi sagði alltaf eftir jólamatinn að nú ætti mamma að hvíla sig, en börnin að taka af borðstofuborðinu og vaska upp áður en gengið yrði til stofu. Í hvatningarskyni notaði hann eitt af uppáhaldsorðtækjum sínum ,,Margar hendur vinna létt verk!“.
Loksins kom að því að opna pakkana. Yngsta læsa barnið fékk það hlutverk að lesa á þá og afhenda viðkomandi. Allir áttu að bíða rólegir og fylgjast með á meðan hver pakki var opnaður þar til búið væri að dreifa öllum gjöfunum. Og þá var nú gaman að njóta og byrja jafnvel að lesa jólabækurnar. Svo hófst gangan í kringum jólatréð þar sem byrjað var að kyrja Heims um ból (sem aldrei mátti syngja fyrr en á jólunum) og svo komu allir hinir leikjasöngvarnir í kjölfarið. Þar voru lokaorðin í sumum vísunum skemmtilegust, eins og í Nú skal segja:
Nú skal segja, nú skal segja
hvernig gamlir karlar gera:
Taka í nefið, taka í nefið
-og svo snúa þeir sér í hring.
AAAtsjúú!!! og allir hnerruðu hástöfum.
Og svo hlógu líka allir hástöfum í lokin á þessari vísu:
Gekk ég yfir sjó og land
og hitti þar einn gamlan mann,
spurði hann og sagði svo:
Hvar áttu heima?
Ég á heima á Hlælandi, Hlælandi,
Hlælandi.
Ég á heima á Hlælandi,
Hlælandinu góða. (Hahahahaha!)
Mikið var ég sæl þegar ég lagðist svo loks á koddann á jólanótt, bað Faðirvorið og fleiri bænir, bað fyrir allri fjölskyldunni og þakkaði Jesú fyrir blessuð jólin.
Á morgun yrði Jóladagur með hangikjöti, uppstúf og laufabrauði. Þá var hægt að liggja á meltunni í bókum allan daginn og á annan í jólum líka þar sem maturinn var alltaf tartalettur fylltar með afgöngum bæði af hangikjötinu og matnum frá því á aðfangadagskvöld. Svo var kannski farið á skíði, skauta eða sparksleða (gjarnan jólagjafirnar frá pabba og mömmu) ef veður leyfði. En í minningunni er snjór, frost og heiðskírt um jólin með vitneskjunni um að nú taki daginn loks að lengja á ný.
Þrátt fyrir alla gleði og kátínu æskujólanna eru þau mér líka kyrrð og helgi í minningunni. Mér er minnistætt þegar ég rúmri hálfri öld síðar kom til að aka mömmu í jólaboð á aðfangadagskvöldi. Mamma bjó þá ein, veik af parkinssonsjúkdómnum og var næstum orðin blind. Hún lá fyrir í rúmi sínu þegar ég kom og treysti sér ekki alveg til að fara strax. Þá kveikti ég á kerti hjá henni við rúmstokkinn og þegar ég sá að klukkan var að verða sex kveikti ég á útvarpinu og við héldumst í hendur. Þegar jólaklukkurnar byrjuðu að hringja var eitthvað svo dásamlegt að sitja þarna ein með mömmu og finna hvernig helgi jólanna hrærði okkur og sameinaði í ást og friði.
Ljóð Stebba og Sellu og afmælisboð 2012
Þegar Sella bauð systkynum og mökum í afmæliskaffi sitt 25. október 2012, svaraði Arnór:
Við Ragna komum. Vara ykkur við: Datt af hjóli í hálku sl. laugardag og fékk stóran skurð á hökubrúnina. Slysadeild, 7 spor. Kv. Arnór “Scarface”
Þá svaraði Stefán:
Sella, ég vil ekki slóra
og slengi mér til þín í köku.
Sjá vil ég senior Nóra
með sjö spora höku.
Svar Sellu við Stebba vísu:
Með hagmæltan föður og hljóðláta móður
við hlógum í boðum svo frjáls við vín
Hjá orðheppnum bróður, þótt edrú og góður
er ógæfu gjarnan snúið í grín